57 klassísk verk í einu

Stórfín útkoma fæst með því að setja 57 klassísk tónverk saman í eitt lag.

Auglýsingar

Ertu taktviss?

Sjáðu hve klár þú ert að halda takti með þessu skemmtilega tóli.


Click image to open interactive version (via Concert Hotels).

Um ofbeldi gagnvart hinu ókunna

Gavin Aung Than gerir myndasögur á síðuna Zen Pencils með því að myndskreyta fleyg og fræg orð. Hér er ein af mínum uppáhalds frá honum, um það samfélagsmein sem ofbeldi er, en myndasagan er byggð á orðum Robert F. Kennedy. Góð lesning í semhengi þeirrar hatursorðræðu sem margir halda uppi gagnvart flóttafólki þessa dagana.

188_rfk

Náðu stjórn á snjalltækjum barnanna með OurPact

Ourpact er áhugavert forrit fyrir snjallsíma sem ég rakst á um daginn. Með því geta foreldrar stjórnað snjalltækjum barna sinna, t.d. með því að takmarka tímann sem hægt er að nota tækið, loka fyrir ákveðin forrit og takmarka t.d. notkun samfélagsmiðla. Þessu er hægt að fjarstýra og höfundar forritsins bjóða meira að segja upp á skemmtilegan samning sem hægt er að gera við barnið um ábyrga notkun tækisins.

Það eru alveg til verri áramótaheit en að ná stjórn á snjalltækjanotkun barnanna, hvort sem það er gert með appi eða öðru móti.

ygkwsqb

Takk fyrir traustið

Nú þegar þriðja jólasöfnunin er komin vel á veg langar mig að spreða nokkrum orðum í að segja hve ótrúlega þakklátur ég er fyrir það að fólk skuli treysta mér til að framkvæma það sem ég legg upp með.
Það er ekki sjálfsagt að treysta einhverjum náunga úti í bæ fyrir því að peningar sem maður leggur inn á reikning í hans eigu fari allur á réttan stað og ég er meðvitaður um það. Þess vegna hef ég passað vel upp á alla reikninga og greitt allt gegnum rekjanlegar leiðir. Allan aukakostnað, svo sem eins og fyrir Facebook auglýsingar sem ég prófaði í ár, hef ég greitt úr eigin vasa.
Svo allt sé uppi á borðum birti ég á hér á síðunni yfirlit yfir framlög og útgjöld sem ég uppfæri reglulega.
Best væri auðvitað ef ég væri stór og traustvekjandi stofnun með endurskoðanda og ársreikninga en ég er bara ég og geri það sem ég get. En með því að fá Velferðarsjóð Suðurnesja og Hjálpræðisherinn til liðs við mig get ég treyst því að það sem ég læt frá mér fer þangað sem þess er virkilega þörf.
Hjartans þakkir til ykkar sem hafið þegar lagt söfnuninni lið. Það eru á annað hundrað börn á Suðurnesjum sem búa við skort og það er ómetanlegt að geta verið hluti af sameiginlegu átaki okkar til að veita ljósi inn í líf þeirra um jólin.

Mikill er máttur bókanna

Frá því við komum til Svíþjóðar hefur Freyja haft takmarkað aðgengi að nýjum, íslenskum bókum. Hún hefur þegar lesið nær allar íslensku barnabækurnar sem í boði eru á bæjarbókasafninu hér í Lundi svo hún sneri sér fljótlega að sænskum bókum. Hún hefur á undanförnum 10 vikum lesið hverja sænska bókina á fætur annarri og lært sænsku á ógnarhraða samhliða því, en um daginn fór hún í sitt fyrsta próf í skólanum þar sem hún svaraði spurningum um víkingatímabilið. Auðvitað var allt á sænsku – námsbókin, prófið og svörin – og hún rúllaði því upp með toppeinkunn.

Þetta þakka ég fyrst og fremst bókalestri en áhugi hennar á bókum væri ekki svona mikill ef ekki væri fyrir frábæra fólkið sem skrifar þær. Fólk eins og Ævar Þór Benediktsson sem gerði börn um allt land gríðarspennt fyrir bókalestri með „Þinni eigin þjóðsögu“ í fyrra. Freyja mín hefur lesið þá bók svo oft að hvorugt okkar hefur á því tölu en hún hefur held ég farið í gegnum alla mögulega enda bókarinnar og suma oftar en einu sinni.

PicMonkey Collage

Í dag barst okkur þykkt, brúnt umslag frá Íslandi sem vakti auðvitað verðskuldaðan áhuga barnanna. Þegar ég sýndi henni að Ævar væri sendandinn hélt ég að hún færi yfirum þegar það rann upp fyrir henni hvað væri þá í umslaginu: „Þín eigin goðsaga.“

Hún hvarf umsvifalaust inn í stofu og sat þar fram að kvöldmat við lestur. Hún greip með sér skriffæri til að geta rakið sig til baka ef hún gerði vitleysu og svo heyrðist ekki meira í henni fyrir utan stöku upphrópanir þegar hún las dramatískar senur.

Hún lifði af fyrstu atrennu og lét Loka ekki plata sig. Ég spurði hana í seinni atrennu hvernig bókin væri og hún sagði „frábær!“ án þess að líta upp því hún var upptekin að skoða Ásgarð með Þjálfa.

Takk fyrir að gera lestur svona skemmtilegan, Ævar.