Skólamaðurinn Árni?

Enginn forystumaður á landinu er jafn mikill baráttumaður fyrir betri menntun og uppeldi barnanna okkar.

Svo hljóðar hluti þeirrar lofræðu sem Sjálfstæðismenn keyptu pláss fyrir í Víkurfréttum þessarar viku og síðustu. Þetta er ekki í eina skiptið sem Árna er hampað sem kyndilbera menntunar á Íslandi, því fylgisfólki hans virðist mikið í mun að við vitum hvað við höfum það rosalega gott að búa við hans leiðtogahæfileika í þeim málum.
En í hverju birtist þessi barátta?

Á síðasta ári sagði Jóhann Geirdal, skólastjóri Holtaskóla, starfi sínu lausu vegna þess að hann treysti sér ekki til þess að starfa innan þess fjárhagsramma sem honum var settur og sagði meðal annars:

„Mér finnst það vera komið að þeim mörkum að það fari að bitna á þjónustunni við nemendur. Þá finnst mér betra að gefa öðrum tækifæri til að gera það, en fara sjálfur yfir á áætlun,“ en rekstur skólans fór yfir á fjárhagsáætlun í fyrra og miðað við þær upphæðir sem skólanum er skammtað í ár sé ljóst að það verði aftur niðurstaðan eftir skólaárið 2013. „Það er ekki góð stjórnsýsla og þá er betra að víkja,“ segir hann og segist einfaldlega ekki vera tilbúinn til þess að skerða þjónustu við börnin.

Bærinn hefur einfaldlega skammtað of naumt til skólans sem hefur verið ómetanlegt skjól fyrir nemendur sem þurfa á viðbótarþjónustu að halda. Og þegar umræðan fór af stað um málið var eitt af áhersluatriðum bæjarins að ráðast gegn skólastjóranum í fjölmiðlum og saka hann um óeðlilegar yfirkeyrslur í rekstri skólans. Yfirkeyrslur sem skrifast kannski helst á að stjórnvöld í stjórnvöld í RNB bera lítið skynbragð á hvað kostar að reka skóla sem þjónustar nemendur á öllum skala mannlegrar tilveru.

„Með skynsamlegri forgangsröðun tekst okkur að greiða mér 1,9 milljónir í laun á mánuði fyrir bæjarstjórastarfið.“

Allt var þetta látið líta út eins og ábyrgðarleysi af hálfu stjórnenda skólans og árás á fjármál skólans voru fyrstu viðbrögð bæjarins.

Á fundi með foreldrum sór fræðslustjóri og sárt við lagði að vel yrði staðið að málefnum skólans og á endanum náðist samkomulag. Því var lofað að skólinn fengi nægilegt fjármagn til eðlilegs reksturs og skólastjórinn dró uppsögn sína til baka.

Nú er eitthvað breytt.

Ég og aðrir foreldrar í Holtaskóla fengum í dag sent bréf þar sem Jóhann tilkynnir okkur um uppsögn sína því Reykjanesbær hafi ekki efnt gefin loforð:

Eins og ykkur er eflaust flestum kunnugt um dró ég uppsögn mína á síðasta ári til baka að uppfylltum ákveðnum skilyrðum en tel nú að efndir hafi ekki verið sem skyldi.

Svona birtist barátta skólamannsins Árna fyrir menntun barna í Reykjanesbæ.

Auglýsingar

Gildur limur*

Ég sá mér til mikillar gleði að fylgjendur stuðningssíðu Gunnars Þórarinssonar eru tvöfalt fleiri í dag en í gær. Eitthvað heyrði ég af æsingi í fólki yfir því að ég væri að skipta mér af starfi flokks sem ég ætlaði ekki að kjósa, en ég gef lítið fyrir það.

Fyrir það fyrsta er aldrei að vita hvað ég kýs…

…en að öllu gamni slepptu, þá er ég að spila eftir þeim reglum sem Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjanesbæ setur fyrir prófkjörið. Það eru engar kröfur um að vera skráður í flokkinn í einhvern tíma fyrir prófkjör, heldur er þetta svo opið að fólki er meira að segja gert kleift að skrá sig á kjörstað.

Fínt. Þá gerum við það svoleiðis. Þú ert ekki að selja sál þína þó þú skráir þig tímabundið í flokkinn til að hafa áhrif á starf hans. Ef þú ert þeirrar skoðunar að bæjarfélaginu sé hagur í að Gunnar hreppi oddvitasætið er skráningin lítill fórnarkostnaður sem ég er sannfærður um að skaðar ekki lífsprinsipp þín til lengri tíma. Láttu vaða – ég gerði það.

Image

Nú bíð ég bara spenntur eftir bitlingum

Ef svo fer sem horfir m.v. skoðanakannanir, að Sjálfstæðisflokkurinn muni enn eitt árið stjórna þessu bæjarfélagi, þá ætla ég að minnsta kosti að reyna að hafa áhrif á það hver stendur í brúnni. Kosningar fara fram í Stapa laugardaginn 1. mars frá kl. 10:00-18:00. Einnig er hægt að kjósa utan kjörfundar alla virka daga fram að prófkjöri í Sjálfstæðishúsinu við Hólagötu 15 í Njarðvík milli kl. 17 og 18.
Smelltu hér til að skrá þig í flokkinn.

Það er kominn tími á að skipta út fjáraustri fyrir fagmennsku.

_______________________________
*Ef maður flettir upp orðasambandinu „gildur limur“ á Google birtast íslenskar síður þar talað er um hve hrikalega fyndið það sé að meðlimir í félögum séu kallaðir „gildir limir“ á færeyskri tungu. Engin niðurstaðan birti færeyska síðu. En hafa skal það sem fyndnara reynist!

Ekki genginn af vitinu

„Ert þú bara farinn að styðja Sjálfstæðisflokkinn?“ var ég spurður símleiðis í gær skömmu eftir að ég deildi síðu til stuðnings Gunnari Þórarinssyni, sem er í framboði til 1.-2. sætis í prófkjöri Sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ sem fram fer nú um helgina.
Ég fullvissaði hinn umhyggjusama hringjanda um að svo væri ekki og átti reyndar eftir að svara svipuðum spurningum næsta sólarhringinn. Einn kunningi sagðist hlæjandi hafa fengið áhyggjur af því um stund að ég væri jafnvel genginn af vitinu. Ég sagði öllum það sama, að þó ég styðji ekki Sjálfstæðisflokkinn styðji ég breytingar innan hans. Ég fagna því að Gunnar bjóði sig fram í sæti oddvita því það er fyrir löngu kominn tími á að skipta þar um. Og ekki spilla fyrir hugmyndir Gunnars um að bæjarstjóri skuli ráðinn faglega en ekki skipaður pólitískt.

Mér finnst ekki veita af í samfélagi sem stjórnað er af flokki sem virðist vera kominn úr öllum tengslum við raunverulegar þarfir bæjarbúa og hefur búið um sig í fílabeinsturni allsnægta og valds.

Það er eitthvað mikið að í stjórnsýslu bæjarfélags sem hættir eitt árið að gefa starfsfólki sínu jólagjafir í sparnaðarskyni og endurnýjar í sömu andrá skrifborðsstóla í ráðhúsinu fyrir hundruðir þúsunda.

Það er eitthvað bilað við það að endurinnrétta nýtt ráðhús með glænýjum innréttingum, sumum úr hátískuverslunum (sbr. ljósakrónur fyrir um 90 þúsund krónur stykkið í anddyri hússins) og senda svo póst á grunnskólana og bjóða þeim að hirða draslið sem ekki hæfir lengur ráðhúsinu. Og jafnvel enn bilaðri eru viðbrögðin, að þangað hafi fólkið hrúgast til að verða sér úti um ölmusur því ekki finnast peningar þegar þarf að endurnýja eitthvað hjá grunnskólunum.

kaffistofan

„…svo sagði ég þeim bara að finna nýtt skrifborð í Góða hirðinum því við værum að spara!“

Mér finnst bæjarfélagi illa stjórnað sem ver 50 milljónum í bæjarhlið og hringtorg á sama tíma og rætt er af fullri alvöru um að hækka álögur á barnafólk til að ná inn 30 milljónum í illa staddan bæjarsjóð.

Í stjórnsýslu Reykjanesbæjar hefur myndast eitthvað sjúkt ástand sem skrifast á að sama fólkið hefur verið of lengi við völd. Og í því hefur þróast foringjadýrkun og klíkuskapur sem beraði sig heldur betur í síðasta tölublaði Víkurfrétta.

Ef ég yrði vitni að því í starfi mínu sem kennari að nemandi byði sig fram sem bekkjarfulltrúi gegn sitjandi bekkjarfulltrúa – vinsæla náunganum – og ekki aðeins bekkurinn, heldur líka eldri bekkingar og fyrrum nemendur hópuðu sig umsvifalaust gegn honum til að gera honum ljóst að hann ætti ekkert með að bjóða sig fram, þá myndi ég grípa inn í. Og ég veit líka alveg hvað ég myndi kalla þannig gjörning.

Áhugi minn á prófkjöri Sjálfstæðismanna er semsagt til kominn því mig þyrstir í breytingar.

Prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ fer fram næsta laugardag í Stapa kl. 10-18. Allir bæjarbúar eiga þennan dag kost á því að hafa áhrif á þann lista sem boðinn verður fram í vor. Ég ætla að mæta og vona að þú gerir það líka.

Hvernig vogar hann sér?

Þessi auglýsing birtist í Víkurfréttum um daginn:

Capture

Ansi margt fer í gegnum hugann við lestur hennar. Persónulega finnst mér þetta vitnisburður um þá slepjulegu foringjadýrkun sem viðgengst í kosningabaráttu (og starfi) Sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ. Muniði eftir bréfunum sem við fengum heim í síðustu bæjarstjórnarkosningunum? Þar sem við vorum beðin um að veita Árna Sigfússyni umboð til þess að leiða bæjarfélagið á þeirri góðu vegferð sem það var á eða eitthvað þvíumlíkt kjaftæði. Kosningabaráttan snerist um hvað það væri nú frábært að hafa Árna áfram sem bæjarstjóra (og hún snerist nú líka um falskar væntingar – en það er efni í önnur skrif) og aðrir á listanum voru bara klappliðið hans. Þetta er byrjað aftur.

Afsprengi þessarar foringjadýrkunar er einmitt það að þegar menn eins og Gunnar Þórarinsson voga sér að sækjast eftir 1. sætinu, þá finnur klappliðið hjá sér þörf til að kaupa auglýsingu til að mæra Árna Sigfússon og leiðtogahæfileika hans. Og undir lofræðuna, sem er hreinlega kómísk á köflum, rita nafn sitt núverandi og fyrrverandi bæjarfulltrúar auk frambjóðenda á lista Sjálfstæðismanna. Það á að kæfa þessa ósvífnu tilraun Gunnars til að rugga bátnum með því að sýna honum að ALLIR standi saman gegn honum. Það held ég að hefði verið nær að Sjálfstæðismenn í Reykjanesbæ keyptu svona auglýsingu til að spara fólki að lesa á milli línanna: Image

Myndband

Lagaval kvöldsins

Við hér á Mánabakka endum suma daga á að allir fá að velja eitt YouTube myndband sem við horfum/hlustum svo á eða dönsum við, allt eftir stemningu.
Þetta er gott tækifæri fyrir ökkur öll til að kynnast nýrri tónlist og þróa tónlistarsmekkinn og svo er þetta líka bara stórskemmtilegt.
Þetta var framlag mitt í kvöld.