Ekki genginn af vitinu

„Ert þú bara farinn að styðja Sjálfstæðisflokkinn?“ var ég spurður símleiðis í gær skömmu eftir að ég deildi síðu til stuðnings Gunnari Þórarinssyni, sem er í framboði til 1.-2. sætis í prófkjöri Sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ sem fram fer nú um helgina.
Ég fullvissaði hinn umhyggjusama hringjanda um að svo væri ekki og átti reyndar eftir að svara svipuðum spurningum næsta sólarhringinn. Einn kunningi sagðist hlæjandi hafa fengið áhyggjur af því um stund að ég væri jafnvel genginn af vitinu. Ég sagði öllum það sama, að þó ég styðji ekki Sjálfstæðisflokkinn styðji ég breytingar innan hans. Ég fagna því að Gunnar bjóði sig fram í sæti oddvita því það er fyrir löngu kominn tími á að skipta þar um. Og ekki spilla fyrir hugmyndir Gunnars um að bæjarstjóri skuli ráðinn faglega en ekki skipaður pólitískt.

Mér finnst ekki veita af í samfélagi sem stjórnað er af flokki sem virðist vera kominn úr öllum tengslum við raunverulegar þarfir bæjarbúa og hefur búið um sig í fílabeinsturni allsnægta og valds.

Það er eitthvað mikið að í stjórnsýslu bæjarfélags sem hættir eitt árið að gefa starfsfólki sínu jólagjafir í sparnaðarskyni og endurnýjar í sömu andrá skrifborðsstóla í ráðhúsinu fyrir hundruðir þúsunda.

Það er eitthvað bilað við það að endurinnrétta nýtt ráðhús með glænýjum innréttingum, sumum úr hátískuverslunum (sbr. ljósakrónur fyrir um 90 þúsund krónur stykkið í anddyri hússins) og senda svo póst á grunnskólana og bjóða þeim að hirða draslið sem ekki hæfir lengur ráðhúsinu. Og jafnvel enn bilaðri eru viðbrögðin, að þangað hafi fólkið hrúgast til að verða sér úti um ölmusur því ekki finnast peningar þegar þarf að endurnýja eitthvað hjá grunnskólunum.

kaffistofan

„…svo sagði ég þeim bara að finna nýtt skrifborð í Góða hirðinum því við værum að spara!“

Mér finnst bæjarfélagi illa stjórnað sem ver 50 milljónum í bæjarhlið og hringtorg á sama tíma og rætt er af fullri alvöru um að hækka álögur á barnafólk til að ná inn 30 milljónum í illa staddan bæjarsjóð.

Í stjórnsýslu Reykjanesbæjar hefur myndast eitthvað sjúkt ástand sem skrifast á að sama fólkið hefur verið of lengi við völd. Og í því hefur þróast foringjadýrkun og klíkuskapur sem beraði sig heldur betur í síðasta tölublaði Víkurfrétta.

Ef ég yrði vitni að því í starfi mínu sem kennari að nemandi byði sig fram sem bekkjarfulltrúi gegn sitjandi bekkjarfulltrúa – vinsæla náunganum – og ekki aðeins bekkurinn, heldur líka eldri bekkingar og fyrrum nemendur hópuðu sig umsvifalaust gegn honum til að gera honum ljóst að hann ætti ekkert með að bjóða sig fram, þá myndi ég grípa inn í. Og ég veit líka alveg hvað ég myndi kalla þannig gjörning.

Áhugi minn á prófkjöri Sjálfstæðismanna er semsagt til kominn því mig þyrstir í breytingar.

Prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ fer fram næsta laugardag í Stapa kl. 10-18. Allir bæjarbúar eiga þennan dag kost á því að hafa áhrif á þann lista sem boðinn verður fram í vor. Ég ætla að mæta og vona að þú gerir það líka.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Breyta )

Tengist við %s