Gildur limur*

Ég sá mér til mikillar gleði að fylgjendur stuðningssíðu Gunnars Þórarinssonar eru tvöfalt fleiri í dag en í gær. Eitthvað heyrði ég af æsingi í fólki yfir því að ég væri að skipta mér af starfi flokks sem ég ætlaði ekki að kjósa, en ég gef lítið fyrir það.

Fyrir það fyrsta er aldrei að vita hvað ég kýs…

…en að öllu gamni slepptu, þá er ég að spila eftir þeim reglum sem Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjanesbæ setur fyrir prófkjörið. Það eru engar kröfur um að vera skráður í flokkinn í einhvern tíma fyrir prófkjör, heldur er þetta svo opið að fólki er meira að segja gert kleift að skrá sig á kjörstað.

Fínt. Þá gerum við það svoleiðis. Þú ert ekki að selja sál þína þó þú skráir þig tímabundið í flokkinn til að hafa áhrif á starf hans. Ef þú ert þeirrar skoðunar að bæjarfélaginu sé hagur í að Gunnar hreppi oddvitasætið er skráningin lítill fórnarkostnaður sem ég er sannfærður um að skaðar ekki lífsprinsipp þín til lengri tíma. Láttu vaða – ég gerði það.

Image

Nú bíð ég bara spenntur eftir bitlingum

Ef svo fer sem horfir m.v. skoðanakannanir, að Sjálfstæðisflokkurinn muni enn eitt árið stjórna þessu bæjarfélagi, þá ætla ég að minnsta kosti að reyna að hafa áhrif á það hver stendur í brúnni. Kosningar fara fram í Stapa laugardaginn 1. mars frá kl. 10:00-18:00. Einnig er hægt að kjósa utan kjörfundar alla virka daga fram að prófkjöri í Sjálfstæðishúsinu við Hólagötu 15 í Njarðvík milli kl. 17 og 18.
Smelltu hér til að skrá þig í flokkinn.

Það er kominn tími á að skipta út fjáraustri fyrir fagmennsku.

_______________________________
*Ef maður flettir upp orðasambandinu „gildur limur“ á Google birtast íslenskar síður þar talað er um hve hrikalega fyndið það sé að meðlimir í félögum séu kallaðir „gildir limir“ á færeyskri tungu. Engin niðurstaðan birti færeyska síðu. En hafa skal það sem fyndnara reynist!