Skólamaðurinn Árni?

Enginn forystumaður á landinu er jafn mikill baráttumaður fyrir betri menntun og uppeldi barnanna okkar.

Svo hljóðar hluti þeirrar lofræðu sem Sjálfstæðismenn keyptu pláss fyrir í Víkurfréttum þessarar viku og síðustu. Þetta er ekki í eina skiptið sem Árna er hampað sem kyndilbera menntunar á Íslandi, því fylgisfólki hans virðist mikið í mun að við vitum hvað við höfum það rosalega gott að búa við hans leiðtogahæfileika í þeim málum.
En í hverju birtist þessi barátta?

Á síðasta ári sagði Jóhann Geirdal, skólastjóri Holtaskóla, starfi sínu lausu vegna þess að hann treysti sér ekki til þess að starfa innan þess fjárhagsramma sem honum var settur og sagði meðal annars:

„Mér finnst það vera komið að þeim mörkum að það fari að bitna á þjónustunni við nemendur. Þá finnst mér betra að gefa öðrum tækifæri til að gera það, en fara sjálfur yfir á áætlun,“ en rekstur skólans fór yfir á fjárhagsáætlun í fyrra og miðað við þær upphæðir sem skólanum er skammtað í ár sé ljóst að það verði aftur niðurstaðan eftir skólaárið 2013. „Það er ekki góð stjórnsýsla og þá er betra að víkja,“ segir hann og segist einfaldlega ekki vera tilbúinn til þess að skerða þjónustu við börnin.

Bærinn hefur einfaldlega skammtað of naumt til skólans sem hefur verið ómetanlegt skjól fyrir nemendur sem þurfa á viðbótarþjónustu að halda. Og þegar umræðan fór af stað um málið var eitt af áhersluatriðum bæjarins að ráðast gegn skólastjóranum í fjölmiðlum og saka hann um óeðlilegar yfirkeyrslur í rekstri skólans. Yfirkeyrslur sem skrifast kannski helst á að stjórnvöld í stjórnvöld í RNB bera lítið skynbragð á hvað kostar að reka skóla sem þjónustar nemendur á öllum skala mannlegrar tilveru.

„Með skynsamlegri forgangsröðun tekst okkur að greiða mér 1,9 milljónir í laun á mánuði fyrir bæjarstjórastarfið.“

Allt var þetta látið líta út eins og ábyrgðarleysi af hálfu stjórnenda skólans og árás á fjármál skólans voru fyrstu viðbrögð bæjarins.

Á fundi með foreldrum sór fræðslustjóri og sárt við lagði að vel yrði staðið að málefnum skólans og á endanum náðist samkomulag. Því var lofað að skólinn fengi nægilegt fjármagn til eðlilegs reksturs og skólastjórinn dró uppsögn sína til baka.

Nú er eitthvað breytt.

Ég og aðrir foreldrar í Holtaskóla fengum í dag sent bréf þar sem Jóhann tilkynnir okkur um uppsögn sína því Reykjanesbær hafi ekki efnt gefin loforð:

Eins og ykkur er eflaust flestum kunnugt um dró ég uppsögn mína á síðasta ári til baka að uppfylltum ákveðnum skilyrðum en tel nú að efndir hafi ekki verið sem skyldi.

Svona birtist barátta skólamannsins Árna fyrir menntun barna í Reykjanesbæ.