Leikur að tölum

Milljón og milljarður eru hugtök sem við heyrum hér og þar og svo oft að við erum eiginlega orðin ónæm. Milljarður hér, 500 milljónir þar… Við getum nokkurn veginn ímyndað okkur hve mikið er í milljón því við kljáumst við þær tölur t.d. í íbúðarláninu okkar og bílakaupum. En milljarður er svakalegt hugtak og stærra en við gerum okkur yfirleitt grein fyrir. Yfir morgunkaffinu ákvað ég að reikna saman nokkra hluti upp á grín.

Fyrir um milljón sekúndna hófst verkfall framhaldsskólakennara.

Fyrir um milljarði sekúndna sló kvikmyndin Flashdance í gegn og Thriller-plata Michael Jackson tróndi á toppi vinsældalistanna.

Fyrir um milljarði mínútna lést Jóhannes skírari, lærisveinn Jesú.

Fyrir um milljarði klukkustunda flutti Homo Sapiens búferlum í fyrsta sinn frá Afríku til Suður-Kína.

Milljarður króna er sú upphæð sem Reykjaneshöfn hefur tapað síðustu tvö ár. Fyrir þá upphæð mætti gefa hverju grunnskólabarni í Reykjanesbæ fría máltíð í þessi tvö ár AUK ÞESS að bjóða gjaldfrjálsa leikskólavistun með inniföldum mat.

Á þeim tíma sem það tók mig að skrifa þennan pistil tapaði Reykjaneshöfn 65 þúsund krónum.

Ef ég raðaði sjö milljarða króna skuld Reykjaneshafnar í beina línu með krónupeningum kæmist ég fjórum sinnum umhverfis jörðina.

Þannig er nú það.

Image

Auglýsingar

Rétt skal vera rétt!

Image„Ég samþykkti að taka 6. sætið án skilyrða,“ sagði Árni Sigfússon og tók það fyrsta.

„Kjörnefnd barðist ekki gegn einum frambjóðanda,“ sagði Ragnar Örn Pétursson og lætur eins og það hafi ekki gerst að formenn Sjálfstæðisfélaganna og helstu áhrifamenn flokksins sendu allir yfirlýsingu til höfuðs Gunnari í fjölmiðla fyrir prófkjörið. Nokkuð sem gerði það að verkum að allir sem ekki eru með höfuðið á kafi í … uh, Sjálfstæðishugsjóninni… sjá að aðgerðir kjörnefndar í kjölfar prófkjörsins voru skipulagðar og komu fæstum á óvart.

„Prófkjörið okkar er svo opið að þú getur meira að segja skráð þig í flokkinn á staðnum og kosið,“ sögðu Sjálfstæðismenn í aðdraganda prófkjörs og létu svo eins og einhver hefði skitið í morgunkornið þeirra þegar fólk tók boðinu.

„Hlutur ungs fólks er óvenju mikill á listanum okkar,“ tilkynntu Sjálfstæðismenn og tefla fram lista þar sem meðalaldur efstu 7 sæta er 46 ár.

Getum við ekki bara sammælst um að hætta að taka þetta fólk alvarlega?

Innskot

Húsin í bænum

IMG_3031c

„Hvað er eiginlega að gerast?“ spurði ég sjálfan mig í hálfum hljóðum þegar ég fór um Innri-Njarðvík í dag og smellti af hverri myndinni á fætur annarri. Heilu raðhúsin og blokkirnar standa þar tóm, húsgrunnar hálfkláraðir með steypustyrktarjárnum sem teygja sig til himins í von um betri tíð og ófrágengnar götur meðfram ruslahrúgum og bílflökum.

2014-03-11 15.09.29 HDR

Þarna eru voldug einbýlishús sem reist voru í góðæristryllingnum en einhversstaðar á leiðinni urðu draumarnir að engu og nú halla sér að þeim morknandi stillansar og plast flaksar í vindinum. Sum þeirra standa auð en í öðrum býr fólk innan um brakið. Einhverjir eygja kannski von um að klára húsin einn góðan veðurdag en sumir sitja fastir með skuldaklafann á bakinu og enga útgönguleið.

2014-03-11 15.14.14 HDR (Large)

I walk this empty street
On the Boulevard of Broken Dreams
Where the city sleeps
And I’m the only one and I walk alone

Ég stóð mig að því að raula lagið Boulevard of Broken Dreams með Green Day þegar ferð mín um bæinn hélt áfram og leiddi mig í Grænáshverfið. Þar kom ég að fallegu, frágengnu húsi sem stóð þar eins og vin í eyðimörkinni innan um gáma, hús með flekum og gapandi húsgrunnum. Þetta var varla það sem íbúarnir sáu fyrir sér þegar þeir byggðu á nýju lóðinni sinni í fína framtíðarhverfinu.

2014-03-11 15.09.37 HDR (Large)

Þessi hverfi eru hrollvekjandi minnisvarði um allt sem miður fór þegar uppgangurinn var sem mestur. Allir ætluðu að græða, bæjaryfirvöld ætluðu að moka hingað fólki hvaðanæva að af landinu og lóðum og byggingarleyfum var útdeilt eins og sælgæti í barnaafmæli.

húhúhús

Ég skildi þetta aldrei. Ég vissi þá, líkt og nú, að það var nóg til af brúklegu húsnæði. Enn er til nóg, og það er víðsvegar um bæinn en stendur autt. Ég hef tekið um þrjú hundruð ljósmyndir af auðu húsnæði í Reykjanesbæ og er ekki búinn að fara um allt. Á sumum myndum eru blokkir og fjölbýli, þannig að ljósmyndirnar gefa ekki einu sinni rétta mynd af magninu.

IMG_2882 (Large)

Ég var spurður út í þetta myndaverkefni mitt í dag og hvers vegna ég héldi að þetta væri svona. Ég gat engin svör gefið. Ég stend bara gapandi frammi fyrir þessu og skil ekki hvernig við gátum leyft bænum okkar að komast í slíka niðurníðslu. Á ég að reiðast bæjaryfirvöldum? Lánastofnunum? Okkur? Ég hef ekki hugmynd. Ég veit það eitt að ég er afskaplega sorgmæddur yfir þessu.

húhús

Ég var líka spurður hver tilgangurinn væri. Hann er einfaldlega sá að vekja athygli á alvarlegum vanda. Við verðum að horfast í augu við hlutina til að eiga möguleika á að laga þá. Krafan hjá sumum um að vel sé talað um Reykjanesbæ er komin út í einhvern fáránleika þar sem menn eru atyrtir fyrir að láta ekki fylgja að hér sé gott íþróttafólk þegar bent er á að húsnæðismál í bænum eru í meirháttar klúðri. Auðvitað er margt gott í bænum okkar. Hér er gott fólk og hæfileikaríkt en hér er líka margt alvarlegt að og við verðum að þora að tala um það.

En ætli það sé ekki kominn tími til að birta kortið í heild sinni þó enn vanti svolítið inn á það. Ég á til dæmis mestan hluta Ásbrúar eftir auk Hafna og nokkurra gatna í Keflavík.

Áður en þú smellir á tengilinn fyrir neðan verð ég að útlista dálítið:

Þegar ég skyggndist eftir tómum húsum leitaði ég að berum gluggum, rússaperum og húsgagnaskorti. Ég lagðist ekki á neina glugga þannig að sum hús fengu að njóta vafans en á móti kemur hef ég kannski rangt fyrir mér með sum hús. Ef þú ert með mjög mínímalískan stíl eða fílar t.d. ekki gardínur eða útimálningu gæti þitt hús verið þarna og þá máttu hafa samband á netfangið styrmir (hjá) styrmir.net og ég kippi því snarlega út. Í sumum tilfellum býr fólk í einum hluta húss en ekki öðrum og ef einhverjum fellur illa að hafa sitt hús í þessu safni tek ég myndina auðvitað út. Eina markmið þessa verkefnis er að upplýsa, þannig að ég vil ekki styggja neinn með óvelkomnum myndum.
Einhver tóm verslunar- og iðnaðarhúsnæði eru þarna líka.

Og já, myndirnar eru ekkert spes. Ég var fyrst og fremst að ná fram GPS staðsetningum með myndavélinni.

Smelltu hér til að sjá herlegheitin. Ef svo ólíklega vill til að þú standir við tölvuna mæli ég með því að þú setjist.

Tómu húsin í Reykjanesbæ

Margir hafa talað um öll tómu húsin sem blasa við þegar maður fer um bæinn okkar og í viðleitni til að átta mig á umfanginu hef ég verið að fara um og taka myndir af tómu húsnæði og fært myndirnar inn á kort. Hér er afraksturinn af því sem komið er, en leitt er að segja frá því að ég hef enn ekki farið um nema hluta bæjarins svo kortið mun versna í útliti áður en yfir lýkur.

Eins og ég hef oft sagt, þá verðum við að horfast í augu við vandamálin ef við ætlum að leysa þau. Þetta er kannski byrjun.

ImageImageImageImage

Peningamokstur í Reykjanesbæ

ImageÍ framhaldi af frétt DV um milljónagjaldþrot fyrirtækis í eigu Böðvars Jónssonar, forseta bæjarstjórnar Reykjanesbæjar spunnust umræður inni á Facebook grúbbu um málið og Böðvar sjálfur blandaði sér í þær og bauðst til að svara spurningum. Svör hans vöktu upp fleiri spurningar um tengd málefni og áður en langt um leið var sitthvað forvitnilegt komið upp á yfirborð.

Það er í stuttu máli þetta:

Árið 2006 sömdu Fasteign hf. og Sæld ehf. um að hið síðarnefnda myndi byggja nýtt útibú Glitnis í Reykjanesbæ fyrir hið fyrrnefnda. Stjórnarformaður Sældar ehf. á þeim tíma var Böðvar Jónsson og eigandi félagsins var Leiðarendi ehf. sem einnig var í eigu Böðvars, en það er fyrirtækið sem DV fjallaði um að hefði skilið eftir sig 300 milljón króna skuldir.

Stjórnarformaður Fasteignar hf. var Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ og samstarfsmaður Böðvars Jónssonar í bæjarstjórn.

Ég ímynda mér að menn hafi ekki þurft að ferðast langt til að eiga í samningaviðræðum út af þessum milljónaviðskiptum.

„Takk fyrir millurnar. Sé þig á kaffistofunni.“

„Takk fyrir millurnar. Sé þig á kaffistofunni.“

Ef ég hef rangt fyrir mér tek ég ábendingum fagnandi. Ég er enginn fræðingur í hinni myrku list að stofna fyrirtæki á fyrirtæki ofan þannig að kannski las ég rangt í eitthvað og óska þá leiðréttinga. Það væri frábært ef ég hefði rangt fyrir mér og tveir forystumenn Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ hefðu ekki verið að flytja fjármuni í samfélagslegri eigu yfir í einkafyrirtæki annars þeirra.

Rithöndin kemur upp um hann

Ég datt niður á grein um daginn þar sem lýst er nýlegri rannsókn sem bendir til þess að stjórnendur með stóra undirskrift séu sjálfsdýrkendur, taki slæmar fjárhagslegar ákvarðanir og að fyrirtækjum sem lúti stjórn yfirmanna með stóra undirskrift gangi almennt verr en öðrum.

„[…]þegar ársskýrsla er með stórri undirskrift stjórnanda – mælt með kassa utan um endimörk undirskriftarinnar með tilliti til nafnlengdar – eyðir fyrirtækið almennt meira í fjárfestingarvörur, rannsóknir og greiningu og yfirtökur en jafningjar í bransanum, en skila þó verri söluhagnaði og söluaukningu á næstu þrem til sex árum.

Ennfremur fundum við samhengi við einkaleyfi. Því stærri sem undirskriftin er, því færri einkaleyfi sem bendir til skorts á nýsköpun. Þessar niðurstöður koma heim og saman við að stór undirskrift lýsir sjálfsdýrkun og sjálfselskandi stjórnendur haga sér á þann veg sem leiðir til slæmrar útkomu – til dæmis með því að yfirgnæfa samræður, hunsa gagnrýni og gera lítið úr starfsfólki.“

Dömur mínar og herrar, ég kynni undirskrift Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, forsætisráðherra:

Image

Allskonar sem byrjar á R

Rövl?

„Hvers vegna ertu með þessa gagnrýni? Það er bara til að búa til leiðindi, maður!“

„Ekki vera neikvæður, líttu á björtu hliðarnar!“

Mér þykir ofsalega vænt um bæinn minn og ég er stoltur af því að vera héðan. Mér finnst hins vegar vandræðalegt hvernig honum er stjórnað og þykir miður að tilheyra því meðvirknisamfélagi sem kýs yfir sig sömu vitleysuna og óráðsíuna ár eftir ár. Við erum öll saman í þessu, þrátt fyrir allt. Mér þykir of vænt um bæinn minn til að þegja yfir því sem er að og mér finnst að mætti laga. Viðsnúningurinn hefst með gagnrýni og samræðum. Ekki með þöggun og þýlyndi.

Ráðamenn vilja að þú horfir á björtu hliðarnar þar til þú blindast.

Image

Þessi bók sem ég rakst á á bókasafninu í dag minnti mig á hvernig við eigum öll okkar misjöfnu áherslur í lífinu.

Ravel

Ég er eiginlega búinn að eiga snjallsíma og iPad of lengi til að viðurkenna kinnroðalaust að ég sé nýbúinn að tileinka mér podcast. Ég hef alltaf verið á leiðinni að gera eitthvað í því en loks í dag sótti ég mér app og byrjaði að hlusta á þátt sem ég hef lengi haft áhuga á, Radiolab. Fyrsta hlustun var Unraveling Bolero sem fjallar um geðveiki, tónlist og myndlist í merkilegu samhengi. Um hliðstæður í lífi tveggja manneskja sem misstu vitið með Bolero í bakgrunni, og Maurice Ravel var önnur þeirra.

Image

Rölt

Mottumars hafði áhugaverða hliðarverkun. Sá náungi sem mætir mér í speglinum á morgnana er alltaf sirkabát sá sami og deginum áður þrátt fyrir að ummálið sé alltaf pínulítið meira. Ber að ofan heilsa ég mér kumpánlega við tannburstun og kannast alltaf við mig. En í gærmorgun, þegar ég hafði rakað allt nema yfirvaraskeggið, gekk ég ber að ofan fram fyrir spegilinn og horfði framan í sjálfan mig með yfirvaraskegg, vömb og túttur. „HVER ERTU EIGINLEGA!?“ gargaði ég í hljóði. Ég sagði þessum gamla bumbukalli stríð á hendur og fór beint út að labba.

Ég þarf samt að hafa tilgang með svona hreyfingu (til viðbótar við að endurheimta sjálfan mig) því ef ég er ekki að ganga milli staða eða að ferðast í einhverjum tilgangi nenni ég ekki af stað. Ég náði mér því í app sem heitir Fog of World, sem er í stuttu máli þannig að ég aflétti þoku af landakorti með því að ferðast eftir því með símann í hönd. Ég setti mér það markmið að ganga skipulega allar götur í bænum.

Á göngunni gafst mér tími til að virða fyrir mér öll tómu húsin í bænum okkar. Mig langaði að átta mig á umfangi tóma húsnæðisins svo ég fór að taka myndir. Alltaf þegar ég sá gardínulausan glugga og það sem virtist vera tómt húsnæði smellti ég af. Ég er búinn að fara í tvo göngutúra og einn hjólatúr – um minna en helming Keflavíkurhverfis – og þetta er afraksturinn:

tomhus2