Sjálfstæðisflokkurinn þarf nýjan oddvita

 Mér finnst frábært að Gunnar Þórarinsson hafi haft til þess kjark að bjóða sig fram í oddvitasæti listans því honum mátti eflaust vera ljóst hver viðbrögðin yrðu. En viðbrögðin innan flokksins segja okkur hve mikilvægt það er að kjósa nýjan oddvita í flokkinn. Viðbrögð Sjálfstæðismanna sýna okkur að ástin á foringjanum er meiri en ástin á lýðræðinu. Og það er ekki bara klikkað, heldur hættulegt.

En skoðum hlutina aðeins í samhengi. Við búum í bæjarfélagi þar sem Sjálfstæðisflokkurinn fer með völd og nýtur stuðnings. Miðað við kannanir lítur út fyrir Sjálfstæðisflokkurinn haldi sínu fylgi og haldi áfram um stjórnartaumana. En þrátt fyrir það getum við íbúarnir haft áhrif á hvaða fólk sinnir þessu starfi fyrir hönd flokksins og þannig átt einhvern vísi að persónukjöri. Sjálfstæðisflokkurinn sendi mér boð um að hafa áhrif og ég þigg það með þökkum.

Þetta er þitt tækifæri til að hafa raunveruleg áhrif á stjórnsýslu Reykjanesbæjar.

Hvers vegna ætti ég annars að vilja Árna áfram í oddvitasætinu? Ætti ég að gera það vegna lofræðanna um hve stórkostlegur leiðtogi hann er og hvernig við eigum alla dýrð bæjarfélagsins honum að þakka? Þegar Sjálfstæðismenn skrifa um hann þarf ég stundum að minna mig á að hann sé ekki eins manns flokkur, í eins manns bæjarstjórn. Hann hagar sér kannski stundum þannig en sú er ekki raunin.

Hans helsta afrek í starfi virðist vera að fá fólk til að elska sig í blindni. Af öðrum afrekum hans má nefna – því við getum ekki þakkað honum sólskinið án þess að minnast á regnið – að við erum fjórða skuldugasta bæjarfélag á landinu með fjármálastjórn sem miðast við að finna meiri peninga til að eyða frekar en að slaka á í spreðinu.

Skýringarmynd úr fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar.

Skýringarmynd úr fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar.

Og það verður þá að minnast á að í okkar bæjarfélagi bíða engar lausnir þeirra sem missa heimili sín. Við erum með lægstu félagsbætur á landinu. Við eyðum frekar pening í grjóthleðslur en að treysta starf grunnskóla. Við látum velferðarsjóð kirkjunnar sjá bágstöddum grunnskólabörnum fyrir mat því bæjarfélagið gerir það ekki. Það er bruðlað með húsgögn og ferðalög í hæstu hæðum stjórnsýslunnar en skorið við nögl þar sem bæjarbúar sækja þjónustu. Og ekki má gleyma að Árni hefur skammtað sér hæstu laun allra bæjarstjóra á landinu, tæpar tvær milljónir á mánuði.

Takk, Árni en þetta er komið gott.

Ég ætla að kjósa Gunnar Þórarinsson í oddvitasætið því flokkurinn þarf nýja forystu og mér hugnast vel hugmyndir hans um að ráða fagmann í sæti bæjarstjóra. Það er ekki í lagi með rekstur bæjarfélagsins og smá fagmennska myndi gera okkur öllum gott.