Trójuhestur í sandkassanum

Lýðræðið er dýrmætt. Ég þarf ekkert að fara mörgum orðum um það því við getum öll verið sammála um svo mikið. Flest, allavega. Ekki formaður Sjálfstæðisfélags Keflavíkur, sem skrifaði grein á vef Víkurfrétta undir yfirskriftinni „Er Trójuhestur í Sjálfstæðisflokknum?“ og fáraðist yfir því að fólk væri að skrá sig í Sjálfstæðisflokkinn til þess að taka þátt í prófkjörinu.

Hann hefði kannski átt að líta í bæklinginn sem barst í öll hús í bæjarfélaginu þar sem fólki er boðið að mæta á kjörstað, skrá sig í flokkinn og greiða atkvæði. Maður ætti ekki að bjóða fólki í partí ef maður vill sitja einn að kökunni.

Sjálfstæðismenn í Reykjanesbæ virðast vera við það að ganga af hjörunum yfir því að þeim hafi ekki tekist að kæfa framboð Gunnars Þórarinssonar í oddvitasæti flokksins. Þeir reyndu að sýna honum og öllum að þeir stæðu sameinaðir gegn honum með auglýsingum sínum en þegar það gekk ekki – þegar það kom í ljós að hann nyti stuðnings í bæjarfélaginu – var þeim nóg boðið.

„Þetta er MITT lýðræði og þú mátt EKKI vera með!“

„Þetta er MITT lýðræði og þú mátt EKKI vera með!“

Formaðurinn leggur spilin á borðið í grein sinni. Ef fólk ætlar ekki að kjósa ástkæran leiðtoga hans má það ekki taka þátt í lýðræðinu. Hver sá sem ætlar að kjósa annan oddvita en valdaklíkan þráir og dáir er að skemma flokkinn innan frá.

En það er þessi orðræða og hegðun sem er að skemma flokkinn innan frá. Þessi botnlausa valdagræðgi og persónudýrkun sem veldur því að fólk andmælir lýðræðinu og ræðst gegn samflokksmönnum sínum fyrir að vilja breytingar. Samflokksmönnum eins og mér, sem ætla að nýta atkvæðisrétt minn sem glansandi nýr flokksbundinn Sjálfstæðismaður á laugardaginn og kjósa Gunnar Þórarinsson í oddvitasætið.
Sjáumst á kjörstað!