Allskonar sem byrjar á R

Rövl?

„Hvers vegna ertu með þessa gagnrýni? Það er bara til að búa til leiðindi, maður!“

„Ekki vera neikvæður, líttu á björtu hliðarnar!“

Mér þykir ofsalega vænt um bæinn minn og ég er stoltur af því að vera héðan. Mér finnst hins vegar vandræðalegt hvernig honum er stjórnað og þykir miður að tilheyra því meðvirknisamfélagi sem kýs yfir sig sömu vitleysuna og óráðsíuna ár eftir ár. Við erum öll saman í þessu, þrátt fyrir allt. Mér þykir of vænt um bæinn minn til að þegja yfir því sem er að og mér finnst að mætti laga. Viðsnúningurinn hefst með gagnrýni og samræðum. Ekki með þöggun og þýlyndi.

Ráðamenn vilja að þú horfir á björtu hliðarnar þar til þú blindast.

Image

Þessi bók sem ég rakst á á bókasafninu í dag minnti mig á hvernig við eigum öll okkar misjöfnu áherslur í lífinu.

Ravel

Ég er eiginlega búinn að eiga snjallsíma og iPad of lengi til að viðurkenna kinnroðalaust að ég sé nýbúinn að tileinka mér podcast. Ég hef alltaf verið á leiðinni að gera eitthvað í því en loks í dag sótti ég mér app og byrjaði að hlusta á þátt sem ég hef lengi haft áhuga á, Radiolab. Fyrsta hlustun var Unraveling Bolero sem fjallar um geðveiki, tónlist og myndlist í merkilegu samhengi. Um hliðstæður í lífi tveggja manneskja sem misstu vitið með Bolero í bakgrunni, og Maurice Ravel var önnur þeirra.

Image

Rölt

Mottumars hafði áhugaverða hliðarverkun. Sá náungi sem mætir mér í speglinum á morgnana er alltaf sirkabát sá sami og deginum áður þrátt fyrir að ummálið sé alltaf pínulítið meira. Ber að ofan heilsa ég mér kumpánlega við tannburstun og kannast alltaf við mig. En í gærmorgun, þegar ég hafði rakað allt nema yfirvaraskeggið, gekk ég ber að ofan fram fyrir spegilinn og horfði framan í sjálfan mig með yfirvaraskegg, vömb og túttur. „HVER ERTU EIGINLEGA!?“ gargaði ég í hljóði. Ég sagði þessum gamla bumbukalli stríð á hendur og fór beint út að labba.

Ég þarf samt að hafa tilgang með svona hreyfingu (til viðbótar við að endurheimta sjálfan mig) því ef ég er ekki að ganga milli staða eða að ferðast í einhverjum tilgangi nenni ég ekki af stað. Ég náði mér því í app sem heitir Fog of World, sem er í stuttu máli þannig að ég aflétti þoku af landakorti með því að ferðast eftir því með símann í hönd. Ég setti mér það markmið að ganga skipulega allar götur í bænum.

Á göngunni gafst mér tími til að virða fyrir mér öll tómu húsin í bænum okkar. Mig langaði að átta mig á umfangi tóma húsnæðisins svo ég fór að taka myndir. Alltaf þegar ég sá gardínulausan glugga og það sem virtist vera tómt húsnæði smellti ég af. Ég er búinn að fara í tvo göngutúra og einn hjólatúr – um minna en helming Keflavíkurhverfis – og þetta er afraksturinn:

tomhus2