Innskot

Húsin í bænum

IMG_3031c

„Hvað er eiginlega að gerast?“ spurði ég sjálfan mig í hálfum hljóðum þegar ég fór um Innri-Njarðvík í dag og smellti af hverri myndinni á fætur annarri. Heilu raðhúsin og blokkirnar standa þar tóm, húsgrunnar hálfkláraðir með steypustyrktarjárnum sem teygja sig til himins í von um betri tíð og ófrágengnar götur meðfram ruslahrúgum og bílflökum.

2014-03-11 15.09.29 HDR

Þarna eru voldug einbýlishús sem reist voru í góðæristryllingnum en einhversstaðar á leiðinni urðu draumarnir að engu og nú halla sér að þeim morknandi stillansar og plast flaksar í vindinum. Sum þeirra standa auð en í öðrum býr fólk innan um brakið. Einhverjir eygja kannski von um að klára húsin einn góðan veðurdag en sumir sitja fastir með skuldaklafann á bakinu og enga útgönguleið.

2014-03-11 15.14.14 HDR (Large)

I walk this empty street
On the Boulevard of Broken Dreams
Where the city sleeps
And I’m the only one and I walk alone

Ég stóð mig að því að raula lagið Boulevard of Broken Dreams með Green Day þegar ferð mín um bæinn hélt áfram og leiddi mig í Grænáshverfið. Þar kom ég að fallegu, frágengnu húsi sem stóð þar eins og vin í eyðimörkinni innan um gáma, hús með flekum og gapandi húsgrunnum. Þetta var varla það sem íbúarnir sáu fyrir sér þegar þeir byggðu á nýju lóðinni sinni í fína framtíðarhverfinu.

2014-03-11 15.09.37 HDR (Large)

Þessi hverfi eru hrollvekjandi minnisvarði um allt sem miður fór þegar uppgangurinn var sem mestur. Allir ætluðu að græða, bæjaryfirvöld ætluðu að moka hingað fólki hvaðanæva að af landinu og lóðum og byggingarleyfum var útdeilt eins og sælgæti í barnaafmæli.

húhúhús

Ég skildi þetta aldrei. Ég vissi þá, líkt og nú, að það var nóg til af brúklegu húsnæði. Enn er til nóg, og það er víðsvegar um bæinn en stendur autt. Ég hef tekið um þrjú hundruð ljósmyndir af auðu húsnæði í Reykjanesbæ og er ekki búinn að fara um allt. Á sumum myndum eru blokkir og fjölbýli, þannig að ljósmyndirnar gefa ekki einu sinni rétta mynd af magninu.

IMG_2882 (Large)

Ég var spurður út í þetta myndaverkefni mitt í dag og hvers vegna ég héldi að þetta væri svona. Ég gat engin svör gefið. Ég stend bara gapandi frammi fyrir þessu og skil ekki hvernig við gátum leyft bænum okkar að komast í slíka niðurníðslu. Á ég að reiðast bæjaryfirvöldum? Lánastofnunum? Okkur? Ég hef ekki hugmynd. Ég veit það eitt að ég er afskaplega sorgmæddur yfir þessu.

húhús

Ég var líka spurður hver tilgangurinn væri. Hann er einfaldlega sá að vekja athygli á alvarlegum vanda. Við verðum að horfast í augu við hlutina til að eiga möguleika á að laga þá. Krafan hjá sumum um að vel sé talað um Reykjanesbæ er komin út í einhvern fáránleika þar sem menn eru atyrtir fyrir að láta ekki fylgja að hér sé gott íþróttafólk þegar bent er á að húsnæðismál í bænum eru í meirháttar klúðri. Auðvitað er margt gott í bænum okkar. Hér er gott fólk og hæfileikaríkt en hér er líka margt alvarlegt að og við verðum að þora að tala um það.

En ætli það sé ekki kominn tími til að birta kortið í heild sinni þó enn vanti svolítið inn á það. Ég á til dæmis mestan hluta Ásbrúar eftir auk Hafna og nokkurra gatna í Keflavík.

Áður en þú smellir á tengilinn fyrir neðan verð ég að útlista dálítið:

Þegar ég skyggndist eftir tómum húsum leitaði ég að berum gluggum, rússaperum og húsgagnaskorti. Ég lagðist ekki á neina glugga þannig að sum hús fengu að njóta vafans en á móti kemur hef ég kannski rangt fyrir mér með sum hús. Ef þú ert með mjög mínímalískan stíl eða fílar t.d. ekki gardínur eða útimálningu gæti þitt hús verið þarna og þá máttu hafa samband á netfangið styrmir (hjá) styrmir.net og ég kippi því snarlega út. Í sumum tilfellum býr fólk í einum hluta húss en ekki öðrum og ef einhverjum fellur illa að hafa sitt hús í þessu safni tek ég myndina auðvitað út. Eina markmið þessa verkefnis er að upplýsa, þannig að ég vil ekki styggja neinn með óvelkomnum myndum.
Einhver tóm verslunar- og iðnaðarhúsnæði eru þarna líka.

Og já, myndirnar eru ekkert spes. Ég var fyrst og fremst að ná fram GPS staðsetningum með myndavélinni.

Smelltu hér til að sjá herlegheitin. Ef svo ólíklega vill til að þú standir við tölvuna mæli ég með því að þú setjist.