Rétt skal vera rétt!

Image„Ég samþykkti að taka 6. sætið án skilyrða,“ sagði Árni Sigfússon og tók það fyrsta.

„Kjörnefnd barðist ekki gegn einum frambjóðanda,“ sagði Ragnar Örn Pétursson og lætur eins og það hafi ekki gerst að formenn Sjálfstæðisfélaganna og helstu áhrifamenn flokksins sendu allir yfirlýsingu til höfuðs Gunnari í fjölmiðla fyrir prófkjörið. Nokkuð sem gerði það að verkum að allir sem ekki eru með höfuðið á kafi í … uh, Sjálfstæðishugsjóninni… sjá að aðgerðir kjörnefndar í kjölfar prófkjörsins voru skipulagðar og komu fæstum á óvart.

„Prófkjörið okkar er svo opið að þú getur meira að segja skráð þig í flokkinn á staðnum og kosið,“ sögðu Sjálfstæðismenn í aðdraganda prófkjörs og létu svo eins og einhver hefði skitið í morgunkornið þeirra þegar fólk tók boðinu.

„Hlutur ungs fólks er óvenju mikill á listanum okkar,“ tilkynntu Sjálfstæðismenn og tefla fram lista þar sem meðalaldur efstu 7 sæta er 46 ár.

Getum við ekki bara sammælst um að hætta að taka þetta fólk alvarlega?