Ógnarstjórn

Pólitísk umræða af hálfu D-listans í Reykjanesbæ hefur að miklu leyti fallið undir sama meginþemað. Óttann við breytingar.

Árni Sigfússon (má ég segja nafnið hans?) talaði um það í upphafi kosningabaráttunnar hve mikilvægt það væri að hann og hans fólk fái áfram að halda hreinum meirihluta svo þau geti klárað þau mál sem þau segjast vera að vinna að. Hann virðist líta svo á að öllu sé sjálfhætt ef aðrir fá að koma að ákvarðanatökunni og þá getur maður auðvitað spurt sig fyrir hvern hann sé að vinna. Flokkinn eða fólkið. Honum og fylgisfólki hans er allavega tíðrætt um hættuna af því að hleypa öðrum að stjórn og eftir því sem það hefur komið betur í ljós að íbúar Reykjanesbæjar hafa ekki áhuga á að veita D-listanum umboð hafa þeir reynt að snúa umræðunni upp í að samstarf flokka leysist upp í einhverja ringulreið. Aftur verður maður að spyrja sig fyrir hverja þeir telja að bæjarfulltrúar vinni. Treysta þeir í alvörunni ekki fólki sem kemur úr mismunandi framboðum til að vinna saman til heilla fyrir bæjarfélagið?

Hvar er lýðræðisástin? Neidjók, D-listinn sýndi að þeim er alveg sama um lýðræðið þegar flestir meðlimir hans lýstu opinberlega frati á framboð Gunnars Þórarinssonar í prófkjörinu sem leið. Helsta viðleitni þeirra til að þykjast vera lýðræðissinnar hefur komið fram í kosningabaráttunni, annars vegar með því að þvinga rekstur HSS inn sem kosningamál með fumkenndri skoðanakönnun og hins vegar með því að láta nemendur grunnskóla kjósa um skólamatseðil næsta árs, sem verður svo reyndar yfirfarinn af næringarfræðingi og settur í skynsamlegt form þannig að draumar barnanna um hamborgara og spagettí í hvert mál verða að engu.

En aftur að óttanum við samstarf. Haraldur Helgason, frambjóðandi D-listans, skrifaði grein í Víkurfréttir þar sem hann sagði orðrétt: „Smáflokkabandalag fólks með ólíkar lífsskoðanir er ekki það sem Reykjanesbær þarf á að halda á erfiðleikatímum.“ Guð forði oss frá fjölbreytni! Hér eru hagsmunir fárra í húfi! Kannski kæmist eitthvað fólk til valda sem myndi reyna að breyta því að Reykjanesbær gerir nákvæmlega ekkert fyrir heimilislausa heldur þvingar þá til búferlaflutninga þar sem heimilislausir héðan verða að leita á náðir Hjálpræðishersins í Reykjavík. Þar eiga þeir ekki einu sinni vísan stað því Reykjanesbær greiðir enga styrki til starfsins.

Ef við hleypum að fólki með ólíkar lífsskoðanir gætu hörmungar og óáran dunið á bæjarbúum. Þá hættum við kannski að hækka álögur á barnafólk á sama tíma og við eyðum tugmilljónum í að reisa stjórnendum bautasteina. Það væri nú meira ruglið.

Og ef einhver í þessum skelfilega hópi kæmi með þá tillögu að rándýr tískuhúsgögn væru kannski ekki það sem ráðhúsið þarf á sama tíma og það sendir stofnunum skipanir um niðurskurð þá færi örugglega allt til andskotans!

Annar vinkill á umræðu D-listans sést þegar húsbíllinn merktur þeim ekur um götur bæjarins. Á meðan svipaður bíll í Reykjavík ber slagorðið: „Byggjum upp – breytum saman“ er bíllinn hér skreyttur með setningunum „Viltu skerta þjónustu?“ og „Vinstri menn banna allt.“ Þetta er ekki málefnaleg barátta heldur áróður sem byggir á ótta og hatri.

Óttinn á að vera allsráðandi í hugum þeirra sem láta sér detta í hug að annar en Árni geti sinnt starfi bæjarstjóra. Hann hefur sko reynsluna! Reynsla bæjarbúa er hins vegar sú að hann hefur ásamt samstarfsfólki sínu gjörsamlega kafkeyrt allan rekstur bæjarins. Það er reynsla sem vert er að miða við. En samkvæmt stuðningsmönnum D-listans gæti arftaki hans bara orðið einhver illur stimpilklukkustarfsmaður sem er skítsama um bæinn okkar og vill bara launatékkann.

"Velkomin á skrifstofu bæjarstjóra. Vinsamlega stattu yfir fallhleranum meðan þú talar."

„Velkomin á skrifstofu nýs bæjarstjóra. Vinsamlega stattu á fallhleranum meðan þú talar.“

Það eina sem við þurfum raunverulega að óttast er að breytingar eigi sér ekki stað um helgina. D-listafólk og stuðningsfólk þeirra hafa á undanfarinni viku opinberað hatur sitt á opinni umræðu og gagnrýni og sýnt hve langt þau ganga í að þagga niður í hinum almenna borgara sem dirfist að setja spurningamerki við stjórnarhætti þeirra. Svoleiðis fólki myndi ég ekki treysta til að stjórna húsfundi, hvað þá heilu bæjarfélagi.

Breytingar knýja dyra í Reykjanesbæ og við verðum að fylgja því eftir. Nú má enginn sitja heima og gefa skít í stjórnsýsluna sem hefur brugðist þeim. Þá er þeim mun meiri ástæða til að skipta út og kalla eftir betri vinnubrögðum. Það verða ALLIR að taka afstöðu og kjósa nú á laugardaginn.

Gefið breytingum séns.

 

Auglýsingar

Árásirnar halda áfram

Enn eina ferðina gera Sjálfstæðismenn mig að sérstöku umtalsefni. Í grein Péturs hafnarstjóra í Víkurfréttum í dag nafngreinir hann mig og segir mig hafa tilkynnt um saur í Smábátahöfninni í Gróf deginum fyrir afhendingu Bláfána til þess eins að skemma fyrir afhendingunni. Líkir því við það að hringja inn sprengjuhótun í flugstöð. En líkt og fyrr skiptir sannleikurinn þá minna máli en útrás fyrir persónulega heift.

Hið rétta í málinu er að þegar ég frétti af því að til stæði að afhenda smábátahöfninni Bláfánann rifjuðust upp fyrir mér umræður á FB og víðar þar sem smábátahöfnin var rædd. Þar var það mál manna að höfnin væri menguð og að þrátt fyrir breytingar sem gerðar hefðu verið á lögn sem dældi skolpi beint í höfnina væri ástandið enn óviðunandi því enn dældist skólp skammt undan. Því velti ég því fyrir mér hvort sjósýni lægu fyrir til grundvallar bláfánaafhendingunni.

Ég hafði samband við Landvernd tæpri viku fyrir ætlaða afhendingu en náði ekki sambandi við manneskjuna sem sögð var ábyrg fyrir afhendingunni. Því varð úr að ég sendi bréf og spurði hvort sjósýni lægju fyrir. Ég bætti við bréfið því sem ég segi hér að ofan, að þetta væri í umræðunni en að ef sjósýni lægju fyrir ættu þau væntanlega að sýna fram á annað. Ef Landvernd hefði afhent Bláfánann án þess að hafa þá hluti á hreinu hefði það verið bæði til skammar fyrir þau og Reykjanesbæ svo mér datt ekki annað í hug en að þetta lægi fyrir.

Svo var ekki.

Í kjölfar fyrirspurnar minnar hringdi Landvernd í Umhverfisstofnun og Heilbrigðiseftirlitið og þá kom upp úr krafsinu að 150 metrum fyrir utan höfnina liggur ólögleg skólplögn sem dælir óhreinsuðu skólpi í sjóinn. Það eitt og sér gaf tilefni til mælinga til að ganga úr skugga um að höfnin verðskuldaði Bláfánann. 

Ef staðið hefði verið faglega að undirbúningi Bláfánans hefðu þessar upplýsingar legið fyrir og borgari hefði ekki þurft að vekja á þeim athygli. Nokkuð sem ég hefði reyndar hugsað mig tvisvar um að gera ef ég hefði vitað að Landvernd sæi ástæðu til að ljóstra upp um tilkynnanda og koma þannig af stað heiftúðugum hefndaraðgerðum hafnarstjóra. Ef staðið hefði verið faglega að undirbúningnum hefði legið fyrir að magn saurgerla á þessu svæði var skv. mælingum Heilbrigðiseftirlitsins í febrúar s.l. vel umfram leyfileg mörk. Áður en breytingar voru gerðar á lögninni var þetta magn í hæstu hæðum en var engu að síður hátt eftir breytingar. Hvers vegna vatnið mælist nú nær drykkjarhæft eftirlæt ég fræðingunum að útskýra.

Mín stærsta synd var að tilkynna um rökstuddar áhyggjur mínar sem borgari yfir því að yfirvöld sinntu ekki eftirlitsskyldu sinni. Ef þau gerðu það hefði Bláfáninn verið afhentur í síðustu viku og Pétur þyrfti ekki að taka út heift sína yfir ófagmennskunni með því að dylgja um mig í fjölmiðlum og láta líta út eins og ég hafi logið um flotkúk á siglingu um höfnina til að vera vondur kall.

Í Ráðhúsi Reykjanesbæjar er forgangsatriðið ekki að vinna faglega, heldur að brjóta á bak aftur þá sem gera kröfu um fagmennsku, gagnsæi og ábyrgð.

Leiðrétting um bláfánann – afhentur á morgun!

Þar sem ég sá starfsmenn bæjarins festa upp Bláfánamerkingar niðri við höfn fór ég auðvitað að kanna málið. Þær upplýsingar sem ég hafði undir höndum við skrifin eru frá því fyrr á árinu og sýna tæplega þrítugfalda saurgerlamengun í vatninu en nú hafa verið tekin ný sýni sem sýna að vatnið í höfninni er þess boðlegt að fá viðurkenningu Bláfánans. Ég held að fáir fagni því jafn vel og ég sem íbúi við svæðið.

Ég ræddi við Landvernd sem tjáðu mér að vissulega sé ólögleg skolplögn rétt utan við höfnina sem hafi gefið tilefni til mælinga áður en afhendingin fór fram en niðurstöður hennar voru svona ánægjulegar. Botninn datt því ekki úr áformunum, heldur hnikuðust þau bara aðeins til og nást því blessunarlega fyrir kosningar.

Þannig að… ég skúbba VF enn eina ferðina (og meira að segja rnb.is) og tilkynni hér með að afhendingin mun fara fram.

Endilega deilið sem víðast! Ég hafði rangt fyrir mér og hef enga ástæðu til að fela það. Þvert á móti vil ég vekja athygli á því svo hægt sé að treysta mér til að ástunda heiðarleg vinnubrögð. Ég er nefninlega ekki fullkominn og einmitt svona virkar upplýst umræða.

Ég virðist hafa skitið í buxurnar en ekki í höfnina. 😉

Örstutt allegóría

Ég hló innilega þegar ég heyrði af þeirri sögusögn nýverið að ég hefði persónulega hægt mér í smábátahöfnina til að eyðileggja fyrir Bláfánaafhendingunni um daginn. Ég er upp með mér að einhver telji mig svo öflugan að ég geti mengað þúsundir rúmmetra af sjó með svona lítilli fyrirhöfn. Spurning um að senda mig í umhverfismat.

giant-toilet-slide

…og kaupa handa mér eitt svona.

En að því gríni sögðu… Það bar svo til að Reykjanesbær sótti um Bláfánann, alþjóðlega umhverfisviðurkenningu, fyrir smábátahöfnina í Gróf og til stóð að afhenda þeim hann síðasta þriðjudag. Það sem Reykjanesbær lét liggja milli hluta í umsóknarferlinu var að 150 metrum fyrir utan höfnina rennur óhreinsað skolp í sjóinn og höfnin inniheldur þar af leiðandi margfalt leyfilegt magn saurgerla (LEIÐRÉTTING: skv mælingum í feb – nýjar mælingar sýna nú annað skv. nýrri bloggfærslu hér á síðunni). Þetta kom upp úr krafsinu áður en afhendingin átti að fara fram og furðar sig auðvitað enginn á að þar með hafi botninn dottið úr umhverfisverndarviðurkenningunni. DV fjallaði um málið og leitaði skýringa en Víkurfréttir birtu örstuttan texta um að afhendingunni hefði verið frestað og minntust ekki á mögulega saurmengun.

Svona fer þetta fram. Skíturinn er falinn, staðarfjölmiðillinn þegir og þetta er allt einhverjum öðrum að kenna.

[Ég hef leiðrétt rangfærslur mínar um saurgerlamagnið í nýrri bloggfærslu. Þær upplýsingar byggðu á eldri gögnum (og kannski sterkari vindáttum) en ný gögn sýna tandurhreina höfn.]

Að kvöldi dags

Ég hef upplifað allskonar tilfinningar í dag. Sú tilfinning sem situr fastast í mér nú þegar ég sit og skrifa þetta er sárindi. Ég er ofboðslega sár yfir því að í örvæntingarfullri tilraun til að drepa gagnrýna umræðu hefur eiginkona bæjarstjóra komið því til leiðar að í hvert hús á Suðurnesjum var í dag borinn út rógur um mig sem tortryggir starf mitt með nemendum. [Hann má lesa með því að smella hér]

Ég get alveg ráðið við að vera kallaður netníðingur af rökþrota fólki því ég veit að bloggið mitt ber vitni um annað. En að blanda kennslustörfum mínum í þetta var ófyrirséð lágkúra.

Ég á að baki 10 ára farsælan kennsluferil í Reykjanesbæ og er stoltur af starfi mínu. Ég kenni tónmennt og stjórna kór auk þess sem ég hef verið umsjónarkennari og verð það aftur á næsta ári. Ég hef byggt upp jákvætt foreldrasamstarf og traust tengsl við nemendur og hef á undanförnum árum gefið af starfi mínu til samfélagsins með því að ferðast til dæmis með kóra á elliheimili og sjúkrahús að gleðja fólk með tónlist.

Ég vinn ekki bara sem kennari. Ég er kennari, vakinn og sofinn. Ég geng langtum lengra en skyldan býður fyrir nemendur mína, hvort sem það er að gefa þeim frítíma minn í námsaðstoð, heimsækja heimili þeirra þegar þess er þörf eða þá að eyða matarhléinu með þeim sem vantar stundum bara einhvern til að tala við. Ég hef verið til staðar fyrir nemendur á þungbærum jafnt sem hamingjuríkum stundum, svarað í símann á nóttunni, ekið landshluta á milli og mætt á íþróttaleiki og tónleika. Hagur og vellíðan barnanna sem ég kenni er mitt leiðarljós.

Því verkjar mig í hjartað að hugsa til þess að það fórnargjald sem ég greiði fyrir að þora að tala gegn valdhöfum í Reykjanesbæ á rökstuddan hátt er að vera rægður í staðarblaðinu sem óhæfur kennari. Að fólk sem ekki hefur hitt mig eða haft reynslu af störfum mínum geri sér nú um mig hugmyndir sem níða í svaðið allt það sem ég hef byggt upp á síðustu 10 árum.

Ég vona að þeir sem vita betur láti í sér heyra og ég vona að reynsla mín verði til þess að opna augun fyrir þeim sjúku aðferðum sem valdhafar beita til að hræða fólk til þöggunar og hlýðni.

Þú greiðir fyrir kosningatrikkin

Um daginn misnotaði Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjanesbæ gróflega aðstöðu sína innan Reykjanesbæjar til að stunda illa dulbúna áróðursstarfsemi þegar skyndilega var farið að dreifa graut í grunnskólum Reykjanesbæjar. Þessi ákvörðun var tekin án nokkurs samráðs við kjörna fulltrúa bæjarins og engin gögn er að finna um hana í fundargerðum bæjarins eins og eðlilegt væri.
Ekki nóg með það, heldur var grautargjöfin tilkynnt í framboðsgrein frá einum frambjóðanda Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ. Verður það gegnsærra?

Ég hélt að þeir hefðu komist að þanmörkum lágkúrunnar með þessu en í dag uppgötvaði ég að hún er bara rétt að byrja. Ég fékk póst frá skóla barnsins míns þar sem mér er tilkynnt um að í viðleitni til að auka íbúalýðræði muni nú fara fram kosning meðal grunnskólabarna um máltíðir næsta árs.

Þetta kemur algjörlega óundirbúið af hálfu bæjarins og það er ekkert um þetta í fundargerðum þeirra. Fræðsluráð hefur ekki fjallað um málið eins og gert væri í eðlilegri stjórnsýslu. Og hér er svo rúsínan í pylsuendanum: Tilkynning um þennan gjörning kemur í formi framboðsgreinar frá frambjóðanda Sjálfstæðisflokksins!

66F1949E-5DE1-483D-B7D9-BEC18904AB93

Þetta er ekki gert fyrir börnin. Þetta er ekki gert fyrir íbúalýðræðið. Þetta er ómerkilegt lýðskrum í þeim tilgangi að blekkja fólk til að líta Sjálfstæðisflokkinn hýru auga.

Ég sat gapandi yfir Víkurfréttum í dag þegar ég las greinina og dauðskammaðist mín fyrir að hafa svo illilega vanmetið hve lágt þeir geta lagst. Og skömminni fylgdi reiði yfir því að mitt útsvar sé notað til að greiða fyrir svona kosningatrikk.

Sjálfstæðismenn í Reykjanesbæ gera engan greinarmun á því hvar þeirra kosningasjóður endar og bæjarsjóður byrjar. Þetta er hrein og klár misnotkun á mínum peningum og ykkar og sýnir okkur bara enn betur hve mikilvægt er að hreinsa út úr Ráðhúsi Reykjanesbæjar þann 31. maí.

Bullað í beinni

ImageJæja, í morgun fór ég á Útvarp Sögu til að ræða við þá um þau málefni sem ég hef verið að halda á lofti undanfarið. Ég svitnaði yfir því í gærkvöldi að gleyma einhverju, bulla einhverja þvælu, tafsa eða fá jafnvel óstjórnlegt hóstakast í beinni. Ég slapp næstum því. Ég endaði á því að ná góðri bulltvennu.

Ég var náttúrlega búinn að lesa mér til óbóta kvöldið og morguninn fyrir viðtalið og þegar ég þurfti að koma ákveðnum hlutum frá mér sló saman í höfðinu á mér og ég bullaði. Ég veeeit að það eru 11 en ekki tólf bæjarfulltrúar. Ég heyrist meira að segja muldra það eftir fyrra bullið. Og ég veeeeeit að það voru ekki þrjátíuogeitthvað prósent sem tóku þátt í síðustu kosningum. Guð má vita hvort ég ætlaði að segja að þrjátíuogeitthvað prósent hefðu ekki tekið þátt eða að þrjátíuogeitthvað prósent kosningabærra íbúa í Reykjanesbæ (að meðtöldum heimasætum) hefðu stutt við Sjálfstæðisflokkinn. Það eina sem ég veit er að þegar ég reyni að höndla með tölur undir pressu á ég til að bulla.

Þess vegna er ég hvorki stærðfræðikennari né stjórnmálamaður. 🙂

En allavega, hér er viðtalið (á 25. mínútu*) ef einhver hefur áhuga á því sem ég segi milli þess sem ég bulla.

*Hjá sumum kemur þetta á 25. mínútu en öðrum á 40. mínútu. Ég hef ekki hugmynd um hvað veldur en þetta er þarna einhversstaðar.