Af lýðskrumurum og skósveinum þeirra

Sama dag og Morgunblaðið birtir niðurstöður Félagsvísindastofnunar sem benda til þess að meirihlutinn í Reykjanesbæ sé fallinn með 37,1% fylgi, þá birta Víkurfréttir þetta:

Image

Ég hringdi í Talnakönnun ehf. og fékk þær upplýsingar að könnunin hefði verið keypt af Sjálfstæðisfélagi í Reykjanesbæ.

Þurfum við að ræða þetta eitthvað frekar?

Ég er samt alveg til í að ræða þetta… Til dæmis það að um 300 manns úr 1100 manna úrtaki vildu svara. Það hanga yfirgripsmeiri kannanir stoltra stærðfræðinemenda á korktöflum í grunnskólastofum landsins. Og eflaust hlutlægari.

Ég er líka alveg til í að ræða það að Víkurfréttir slá því upp á forsíðunni að 9,6% vilji Gunnar Þórarinsson sem bæjarstjóra. Það er ágætis prósenta fyrir mann sem hefur gefið það skýrt til kynna að hann vill ekki verða bæjarstjóri, heldur ætlar að ráða til þess löngu tímabæran fagmann.

Við getum velt fyrir okkur hvernig aðdragandi þessarar fréttar var á ritstjórnarstofu Víkurfrétta. Hringdi bara einhver í Palla Ket og spurði hvort þeir mættu ekki fá að skella einni könnun á forsíðuna sem sýndi fram á yfirburði þeirra? Eða var þetta kannski á hinn veginn? Ákvað blaðamaður hjá Víkurfréttum að skella í eina kosningafrétt á forsíðuna og hafði samband við Sjálfstæðismenn til að gá hvort þeir ættu nokkuð könnun sem þeir gætu byggt á.

Á leiðinni heim ætla ég að kaupa Morgunblaðið og leggja það svo á eldhúsborðið við hliðina á Víkurfréttum til að taka af því mynd og minnast þeirrar stundar er Víkurfréttir stóðu algjörlega berrassaðar frammi fyrir bæjarbúum sem skósveinar Sjálfstæðisflokksins.

2 athugasemdir við “Af lýðskrumurum og skósveinum þeirra

Ummæli eru ekki leyfð.