Vandræðalegt…

Það er alltaf svolítið vandræðalegt fyrir fólk að verða uppvíst að baktjaldamakki.

Víkurfréttir fundu fyrir því á dögunum þegar bæjarbúar ýmist hneyksluðust eða hlógu að því hvernig þeir beruðu sig hressilega sem málgagn Sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ. Böðvar Jónsson, 3. maður á lista Sjálfstæðismanna, fann fyrir því þegar hann hvarf skyndilega úr umræðu á Facebook þar sem tilraunir hans til að kæfa umræðu um afskriftir kveiktu þess í stað óþægilegar spurningar um viðskipti fyrirtækja í hans eigu við Fasteign ehf. (undir stjórn Árna Sigfússonar) og beint við Reykjanesbæ þegar hann sat í bæjarstjórn Reykjanesbæjar.

Við þessa flóru bætist nú stjórnandi Facebooksíðu Reykjanesbæjar en á þeirri síðu birtist lofræða um bæjarstjórann þar sem kosningafundirnir íbúafundirnir nýafstöðnu voru sagðir til vitnis um að líklega væri vart hægt að finna bæjarstjóra á Íslandi sem væri í betri tengslum við íbúa.

Mér blöskraði svo þessi misnotkun á samfélagsmiðlum bæjarins í áróðurstilgangi að ég deildi færslunni á minni Facebook síðu og fordæmdi hana harðlega. Eitthvað hefur stjórnandinn þá orðið vandræðalegur og eyddi í kjölfarið færslunni af síðunni og þar með deilingu minni og athugasemdum. Svona gerist þegar fólk veit upp á sig skömmina.

Það vill nú svo heppilega til að ég á skjáskot af færslunni og birti hana hér, ykkur til upplýsingar.

Image

Þau sem stjórna Reykjanesbæ hafa setið svo lengi við völd að þau hafa varla lengur rænu á því að hylja spillinguna. Það er treyst á þýlyndi og þöggun og að íbúar bæjarins kyngi athugasemdalaust þeim áróðri sem Sjálfstæðisfólk í valdastöðum í ráðhúsinu lætur frá sér. Það er treyst á að þegar samfélagsmiðill bæjarins er misnotaður í pólitískum tilgangi sé nóg að láta það bara hverfa til að ekki verði minnst á það meira.

Aldeilis ekki.