Bullað í beinni

ImageJæja, í morgun fór ég á Útvarp Sögu til að ræða við þá um þau málefni sem ég hef verið að halda á lofti undanfarið. Ég svitnaði yfir því í gærkvöldi að gleyma einhverju, bulla einhverja þvælu, tafsa eða fá jafnvel óstjórnlegt hóstakast í beinni. Ég slapp næstum því. Ég endaði á því að ná góðri bulltvennu.

Ég var náttúrlega búinn að lesa mér til óbóta kvöldið og morguninn fyrir viðtalið og þegar ég þurfti að koma ákveðnum hlutum frá mér sló saman í höfðinu á mér og ég bullaði. Ég veeeit að það eru 11 en ekki tólf bæjarfulltrúar. Ég heyrist meira að segja muldra það eftir fyrra bullið. Og ég veeeeeit að það voru ekki þrjátíuogeitthvað prósent sem tóku þátt í síðustu kosningum. Guð má vita hvort ég ætlaði að segja að þrjátíuogeitthvað prósent hefðu ekki tekið þátt eða að þrjátíuogeitthvað prósent kosningabærra íbúa í Reykjanesbæ (að meðtöldum heimasætum) hefðu stutt við Sjálfstæðisflokkinn. Það eina sem ég veit er að þegar ég reyni að höndla með tölur undir pressu á ég til að bulla.

Þess vegna er ég hvorki stærðfræðikennari né stjórnmálamaður. 🙂

En allavega, hér er viðtalið (á 25. mínútu*) ef einhver hefur áhuga á því sem ég segi milli þess sem ég bulla.

*Hjá sumum kemur þetta á 25. mínútu en öðrum á 40. mínútu. Ég hef ekki hugmynd um hvað veldur en þetta er þarna einhversstaðar.