Þú greiðir fyrir kosningatrikkin

Um daginn misnotaði Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjanesbæ gróflega aðstöðu sína innan Reykjanesbæjar til að stunda illa dulbúna áróðursstarfsemi þegar skyndilega var farið að dreifa graut í grunnskólum Reykjanesbæjar. Þessi ákvörðun var tekin án nokkurs samráðs við kjörna fulltrúa bæjarins og engin gögn er að finna um hana í fundargerðum bæjarins eins og eðlilegt væri.
Ekki nóg með það, heldur var grautargjöfin tilkynnt í framboðsgrein frá einum frambjóðanda Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ. Verður það gegnsærra?

Ég hélt að þeir hefðu komist að þanmörkum lágkúrunnar með þessu en í dag uppgötvaði ég að hún er bara rétt að byrja. Ég fékk póst frá skóla barnsins míns þar sem mér er tilkynnt um að í viðleitni til að auka íbúalýðræði muni nú fara fram kosning meðal grunnskólabarna um máltíðir næsta árs.

Þetta kemur algjörlega óundirbúið af hálfu bæjarins og það er ekkert um þetta í fundargerðum þeirra. Fræðsluráð hefur ekki fjallað um málið eins og gert væri í eðlilegri stjórnsýslu. Og hér er svo rúsínan í pylsuendanum: Tilkynning um þennan gjörning kemur í formi framboðsgreinar frá frambjóðanda Sjálfstæðisflokksins!

66F1949E-5DE1-483D-B7D9-BEC18904AB93

Þetta er ekki gert fyrir börnin. Þetta er ekki gert fyrir íbúalýðræðið. Þetta er ómerkilegt lýðskrum í þeim tilgangi að blekkja fólk til að líta Sjálfstæðisflokkinn hýru auga.

Ég sat gapandi yfir Víkurfréttum í dag þegar ég las greinina og dauðskammaðist mín fyrir að hafa svo illilega vanmetið hve lágt þeir geta lagst. Og skömminni fylgdi reiði yfir því að mitt útsvar sé notað til að greiða fyrir svona kosningatrikk.

Sjálfstæðismenn í Reykjanesbæ gera engan greinarmun á því hvar þeirra kosningasjóður endar og bæjarsjóður byrjar. Þetta er hrein og klár misnotkun á mínum peningum og ykkar og sýnir okkur bara enn betur hve mikilvægt er að hreinsa út úr Ráðhúsi Reykjanesbæjar þann 31. maí.