Að kvöldi dags

Ég hef upplifað allskonar tilfinningar í dag. Sú tilfinning sem situr fastast í mér nú þegar ég sit og skrifa þetta er sárindi. Ég er ofboðslega sár yfir því að í örvæntingarfullri tilraun til að drepa gagnrýna umræðu hefur eiginkona bæjarstjóra komið því til leiðar að í hvert hús á Suðurnesjum var í dag borinn út rógur um mig sem tortryggir starf mitt með nemendum. [Hann má lesa með því að smella hér]

Ég get alveg ráðið við að vera kallaður netníðingur af rökþrota fólki því ég veit að bloggið mitt ber vitni um annað. En að blanda kennslustörfum mínum í þetta var ófyrirséð lágkúra.

Ég á að baki 10 ára farsælan kennsluferil í Reykjanesbæ og er stoltur af starfi mínu. Ég kenni tónmennt og stjórna kór auk þess sem ég hef verið umsjónarkennari og verð það aftur á næsta ári. Ég hef byggt upp jákvætt foreldrasamstarf og traust tengsl við nemendur og hef á undanförnum árum gefið af starfi mínu til samfélagsins með því að ferðast til dæmis með kóra á elliheimili og sjúkrahús að gleðja fólk með tónlist.

Ég vinn ekki bara sem kennari. Ég er kennari, vakinn og sofinn. Ég geng langtum lengra en skyldan býður fyrir nemendur mína, hvort sem það er að gefa þeim frítíma minn í námsaðstoð, heimsækja heimili þeirra þegar þess er þörf eða þá að eyða matarhléinu með þeim sem vantar stundum bara einhvern til að tala við. Ég hef verið til staðar fyrir nemendur á þungbærum jafnt sem hamingjuríkum stundum, svarað í símann á nóttunni, ekið landshluta á milli og mætt á íþróttaleiki og tónleika. Hagur og vellíðan barnanna sem ég kenni er mitt leiðarljós.

Því verkjar mig í hjartað að hugsa til þess að það fórnargjald sem ég greiði fyrir að þora að tala gegn valdhöfum í Reykjanesbæ á rökstuddan hátt er að vera rægður í staðarblaðinu sem óhæfur kennari. Að fólk sem ekki hefur hitt mig eða haft reynslu af störfum mínum geri sér nú um mig hugmyndir sem níða í svaðið allt það sem ég hef byggt upp á síðustu 10 árum.

Ég vona að þeir sem vita betur láti í sér heyra og ég vona að reynsla mín verði til þess að opna augun fyrir þeim sjúku aðferðum sem valdhafar beita til að hræða fólk til þöggunar og hlýðni.