Árásirnar halda áfram

Enn eina ferðina gera Sjálfstæðismenn mig að sérstöku umtalsefni. Í grein Péturs hafnarstjóra í Víkurfréttum í dag nafngreinir hann mig og segir mig hafa tilkynnt um saur í Smábátahöfninni í Gróf deginum fyrir afhendingu Bláfána til þess eins að skemma fyrir afhendingunni. Líkir því við það að hringja inn sprengjuhótun í flugstöð. En líkt og fyrr skiptir sannleikurinn þá minna máli en útrás fyrir persónulega heift.

Hið rétta í málinu er að þegar ég frétti af því að til stæði að afhenda smábátahöfninni Bláfánann rifjuðust upp fyrir mér umræður á FB og víðar þar sem smábátahöfnin var rædd. Þar var það mál manna að höfnin væri menguð og að þrátt fyrir breytingar sem gerðar hefðu verið á lögn sem dældi skolpi beint í höfnina væri ástandið enn óviðunandi því enn dældist skólp skammt undan. Því velti ég því fyrir mér hvort sjósýni lægu fyrir til grundvallar bláfánaafhendingunni.

Ég hafði samband við Landvernd tæpri viku fyrir ætlaða afhendingu en náði ekki sambandi við manneskjuna sem sögð var ábyrg fyrir afhendingunni. Því varð úr að ég sendi bréf og spurði hvort sjósýni lægju fyrir. Ég bætti við bréfið því sem ég segi hér að ofan, að þetta væri í umræðunni en að ef sjósýni lægju fyrir ættu þau væntanlega að sýna fram á annað. Ef Landvernd hefði afhent Bláfánann án þess að hafa þá hluti á hreinu hefði það verið bæði til skammar fyrir þau og Reykjanesbæ svo mér datt ekki annað í hug en að þetta lægi fyrir.

Svo var ekki.

Í kjölfar fyrirspurnar minnar hringdi Landvernd í Umhverfisstofnun og Heilbrigðiseftirlitið og þá kom upp úr krafsinu að 150 metrum fyrir utan höfnina liggur ólögleg skólplögn sem dælir óhreinsuðu skólpi í sjóinn. Það eitt og sér gaf tilefni til mælinga til að ganga úr skugga um að höfnin verðskuldaði Bláfánann. 

Ef staðið hefði verið faglega að undirbúningi Bláfánans hefðu þessar upplýsingar legið fyrir og borgari hefði ekki þurft að vekja á þeim athygli. Nokkuð sem ég hefði reyndar hugsað mig tvisvar um að gera ef ég hefði vitað að Landvernd sæi ástæðu til að ljóstra upp um tilkynnanda og koma þannig af stað heiftúðugum hefndaraðgerðum hafnarstjóra. Ef staðið hefði verið faglega að undirbúningnum hefði legið fyrir að magn saurgerla á þessu svæði var skv. mælingum Heilbrigðiseftirlitsins í febrúar s.l. vel umfram leyfileg mörk. Áður en breytingar voru gerðar á lögninni var þetta magn í hæstu hæðum en var engu að síður hátt eftir breytingar. Hvers vegna vatnið mælist nú nær drykkjarhæft eftirlæt ég fræðingunum að útskýra.

Mín stærsta synd var að tilkynna um rökstuddar áhyggjur mínar sem borgari yfir því að yfirvöld sinntu ekki eftirlitsskyldu sinni. Ef þau gerðu það hefði Bláfáninn verið afhentur í síðustu viku og Pétur þyrfti ekki að taka út heift sína yfir ófagmennskunni með því að dylgja um mig í fjölmiðlum og láta líta út eins og ég hafi logið um flotkúk á siglingu um höfnina til að vera vondur kall.

Í Ráðhúsi Reykjanesbæjar er forgangsatriðið ekki að vinna faglega, heldur að brjóta á bak aftur þá sem gera kröfu um fagmennsku, gagnsæi og ábyrgð.

Auglýsingar