Ógnarstjórn

Pólitísk umræða af hálfu D-listans í Reykjanesbæ hefur að miklu leyti fallið undir sama meginþemað. Óttann við breytingar.

Árni Sigfússon (má ég segja nafnið hans?) talaði um það í upphafi kosningabaráttunnar hve mikilvægt það væri að hann og hans fólk fái áfram að halda hreinum meirihluta svo þau geti klárað þau mál sem þau segjast vera að vinna að. Hann virðist líta svo á að öllu sé sjálfhætt ef aðrir fá að koma að ákvarðanatökunni og þá getur maður auðvitað spurt sig fyrir hvern hann sé að vinna. Flokkinn eða fólkið. Honum og fylgisfólki hans er allavega tíðrætt um hættuna af því að hleypa öðrum að stjórn og eftir því sem það hefur komið betur í ljós að íbúar Reykjanesbæjar hafa ekki áhuga á að veita D-listanum umboð hafa þeir reynt að snúa umræðunni upp í að samstarf flokka leysist upp í einhverja ringulreið. Aftur verður maður að spyrja sig fyrir hverja þeir telja að bæjarfulltrúar vinni. Treysta þeir í alvörunni ekki fólki sem kemur úr mismunandi framboðum til að vinna saman til heilla fyrir bæjarfélagið?

Hvar er lýðræðisástin? Neidjók, D-listinn sýndi að þeim er alveg sama um lýðræðið þegar flestir meðlimir hans lýstu opinberlega frati á framboð Gunnars Þórarinssonar í prófkjörinu sem leið. Helsta viðleitni þeirra til að þykjast vera lýðræðissinnar hefur komið fram í kosningabaráttunni, annars vegar með því að þvinga rekstur HSS inn sem kosningamál með fumkenndri skoðanakönnun og hins vegar með því að láta nemendur grunnskóla kjósa um skólamatseðil næsta árs, sem verður svo reyndar yfirfarinn af næringarfræðingi og settur í skynsamlegt form þannig að draumar barnanna um hamborgara og spagettí í hvert mál verða að engu.

En aftur að óttanum við samstarf. Haraldur Helgason, frambjóðandi D-listans, skrifaði grein í Víkurfréttir þar sem hann sagði orðrétt: „Smáflokkabandalag fólks með ólíkar lífsskoðanir er ekki það sem Reykjanesbær þarf á að halda á erfiðleikatímum.“ Guð forði oss frá fjölbreytni! Hér eru hagsmunir fárra í húfi! Kannski kæmist eitthvað fólk til valda sem myndi reyna að breyta því að Reykjanesbær gerir nákvæmlega ekkert fyrir heimilislausa heldur þvingar þá til búferlaflutninga þar sem heimilislausir héðan verða að leita á náðir Hjálpræðishersins í Reykjavík. Þar eiga þeir ekki einu sinni vísan stað því Reykjanesbær greiðir enga styrki til starfsins.

Ef við hleypum að fólki með ólíkar lífsskoðanir gætu hörmungar og óáran dunið á bæjarbúum. Þá hættum við kannski að hækka álögur á barnafólk á sama tíma og við eyðum tugmilljónum í að reisa stjórnendum bautasteina. Það væri nú meira ruglið.

Og ef einhver í þessum skelfilega hópi kæmi með þá tillögu að rándýr tískuhúsgögn væru kannski ekki það sem ráðhúsið þarf á sama tíma og það sendir stofnunum skipanir um niðurskurð þá færi örugglega allt til andskotans!

Annar vinkill á umræðu D-listans sést þegar húsbíllinn merktur þeim ekur um götur bæjarins. Á meðan svipaður bíll í Reykjavík ber slagorðið: „Byggjum upp – breytum saman“ er bíllinn hér skreyttur með setningunum „Viltu skerta þjónustu?“ og „Vinstri menn banna allt.“ Þetta er ekki málefnaleg barátta heldur áróður sem byggir á ótta og hatri.

Óttinn á að vera allsráðandi í hugum þeirra sem láta sér detta í hug að annar en Árni geti sinnt starfi bæjarstjóra. Hann hefur sko reynsluna! Reynsla bæjarbúa er hins vegar sú að hann hefur ásamt samstarfsfólki sínu gjörsamlega kafkeyrt allan rekstur bæjarins. Það er reynsla sem vert er að miða við. En samkvæmt stuðningsmönnum D-listans gæti arftaki hans bara orðið einhver illur stimpilklukkustarfsmaður sem er skítsama um bæinn okkar og vill bara launatékkann.

"Velkomin á skrifstofu bæjarstjóra. Vinsamlega stattu yfir fallhleranum meðan þú talar."

„Velkomin á skrifstofu nýs bæjarstjóra. Vinsamlega stattu á fallhleranum meðan þú talar.“

Það eina sem við þurfum raunverulega að óttast er að breytingar eigi sér ekki stað um helgina. D-listafólk og stuðningsfólk þeirra hafa á undanfarinni viku opinberað hatur sitt á opinni umræðu og gagnrýni og sýnt hve langt þau ganga í að þagga niður í hinum almenna borgara sem dirfist að setja spurningamerki við stjórnarhætti þeirra. Svoleiðis fólki myndi ég ekki treysta til að stjórna húsfundi, hvað þá heilu bæjarfélagi.

Breytingar knýja dyra í Reykjanesbæ og við verðum að fylgja því eftir. Nú má enginn sitja heima og gefa skít í stjórnsýsluna sem hefur brugðist þeim. Þá er þeim mun meiri ástæða til að skipta út og kalla eftir betri vinnubrögðum. Það verða ALLIR að taka afstöðu og kjósa nú á laugardaginn.

Gefið breytingum séns.

 

Auglýsingar