Gerðist það ef ég upplifði það ekki?

see-no-evil

Ástjörn er heit í umræðum dagsins þar sem móðir sagði DV frá hatursáróðri sem barn hennar sat undir í sumarbúðunum þar. Í kommentakerfinu kveður við sama tón og oft þegar svona mál ber á góma. „Ég var þarna og átti góðar stundir. Ömurlegt að verið sé að sverta staðinn“ er nokkurnveginn tónninn í því sem margir segja. Þetta gerðist líka í umræðunni um eineltismálið í Grindavík og hefur gerst oft áður. 

Ég þoli þetta ekki.

Grunnskólaganga mín var alveg hreint ágæt. Ég átti þar góða vini, gekk vel í námi og komst óskaddaður frá öllum þeim uppákomum sem árunum fylgdu. Ég er hins vegar ekki svo einfaldur að halda að svo hafi verið um alla. Á þeim tíma var ég það reyndar. Ég var alveg merkilega ómeðvitaður um „stóru málin“ eins og það hverjir voru farnir að prufa eiturlyf, sofa hjá og efna til slagsmála. Það var handan míns sjóndeildarhrings. Ég hvái enn eins og sauður þegar jafnaldrar mínir rifja upp einhverja skandala unglingsáranna sem voru kannski flestum ljósir öðrum en mér. Og bara nýlega komst ég að því að nemandi sem var mér samtíða í skóla varð fyrir langvarandi og grófu einelti á þeim tíma. Hann var ekki sá eini sem ég uppgötvaði seint að hafði átt hræðilega skólagöngu en mér dettur ekki í hug að efast um það vegna þess hve vel ég naut mín í öðru meðan á því stóð. 

Ég get skilið að óþroskaður heili barna og unglinga eigi erfitt með að ná utan um hve ólík upplifun fólks getur verið en allir sem hafa móttekið þroska fullorðinsáranna skilja litróf einstaklinga og þeirra aðstæðna sem þeir upplifa. Við bregðumst ekki öll eins við. Við horfum ekki alltaf öll í sömu átt. 

Ég var í sumarbúðunum á Ástjörn sem barn. Ég man vel eftir góðu stundum sem ég átti með vini mínum Sigursteini sem ég kynntist þar. Ég man eftir dauða fuglinum sem við fundum og veittum viðhafnarútför úti í skógi. Ég man eftir öllum lögunum sem ég lærði og söng af innlifun og skrýtna karlinum með síða hárið sem kom í heimsókn í matsalinn og sagði okkur frá því að hann hefði ekki notað sjampó í 20 ár. Ég man eftir því þegar starfsmaður öskraði á ungan dreng á 10 sentimetra færi vegna þess að hann hafði ekki lyst á að klára grautinn sinn og stóð svo yfir honum meðan hann píndi í sig hverja skeið á fætur annarri. Ég man líka eftir bylmingshögginu sem ég heyrði rétt eftir að drengur var dreginn fram í forstofu því hann svaraði með skætingi þegar hann var krafinn um ástæður þess að hann mætti seint í söngstund. Og ég gleymi ekki svipnum á honum þegar hann gekk grátandi með hönd á vanga aftur inn í salinn og settist hljóður niður meðan við tókum upp þráðinn að syngja um Jesú.

Við fetum ekki öll sömu stíga í lífinu og við verðum stundum að taka augun af eigin fótum. Mín upplifun af Ástjörn var neikvæð. Upplifun drengsins sem um ræðir í fréttinni var neikvæð. Upplifun annarra, sama hversu jákvæð hún er, er ekki réttari en okkar. Bara öðruvísi.

Auglýsingar

Dálítil Facebook-saga

Fréttaveita Facebook vinnur út frá ákveðnu reikniriti sem skammtar þér uppfærslur eftir því sem það telur líklegt að þú viljir sjá. Þannig sjáið þið aðeins uppfærslur frá hluta þeirra sem eru á vinalistanum ykkar enda væru þær annars svo margar að þið kæmust ekki yfir að skoða þær allar. Það eru góðar hliðar og slæmar á þessu en Facebook gengur út frá samskiptum ykkar við Facebook-vinina og læk og komment á fréttaveitunni til að meta hvað á að birta. Þannig er flest efnið okkur þóknanlegt og enginn sér tilefni til að kvarta.

Þið getið gert tilraunir með þetta sjálf með því að fletta upp einhverjum af handahófi á vinalistanum sem jafnan birtist ekki á fréttaveitunni og lækað eða kommentað á nokkrar færslur hjá viðkomandi. Eða jafnvel kastað kveðju gegnum spjallið. Áður en langt um líður fara að birtast færslur frá þessum aðila á fréttaveitunni. Sniðugt, ekki satt?

En eftirlit Facebook er nánara en flestir gera sér grein fyrir. Hér er dæmi úr mínum raunveruleika.

Fyrir nokkru síðan var 5 ára sonur minn að tala í símann minn. Þegar símtalinu lauk fóru fiktiputtarnir af stað og hann valdi manneskju af tenglalistanum mínum og hringdi í hana án þess að átta sig á því.

Nokkrum mínútum síðar hringdi þessi manneskja í mig og spurði hvort ég hefði verið að reyna að hringja því hún hefði móttekið símtal frá mér en á línunni hefði bara verið þögn. Ég áttaði mig á því hvað hafði gerst og útskýrði það og símtalið varð ekki mikið lengra.

Þrátt fyrir að ég þekki þessa manneskju ágætlega erum við ekki í miklum samskiptum en erum þó vinir á Facebook. Þegar við tengdumst á Facebook fyrir einhverjum árum sá ég nokkrar uppfærslur frá henni en þar sem ég hvorki lækaði né kommentaði hvarf hún í myrkur reikniritsins og birtist ekki meira á fréttaveitunni.

En þegar ég settist við tölvuna þetta kvöld og opnaði vefinn tilkynnti Facebook mér að hún hefði uppfært prófílmyndina sína einhverjum vikum áður og birti mér til viðbótar stöðuuppfærslu frá henni.

Facebook fylgist nefninlega ekki bara með því sem þú gerir á Facebook.

Ekki auglýsa að heimilið þitt sé mannlaust

checkinNú sem fyrr stundar illa gert fólk það að brjótast inn á heimili fólks meðan það er fjarri, sér í lagi um stórar ferðahelgar eins og Verslunarmannahelgina. Í hvert sinn sem ég sé vini mína „tékka sig inn“ á Facebook á skemmtilegum stöðum hérlendis og erlendis víkur öfund fyrir áhyggjum því með hverri slíkri Facebook-færslu er fólk að auglýsa það að enginn sé í húsinu þeirra.

Ég fletti niður Facebook-vegginn minn áður en ég skrifaði þetta og hafði ekki farið langt þegar ég taldi 10 ferðalagafærslur. Sumar voru frá vinum mínum sem ég þekki persónulega, einhverjar frá Facebook-vinum sem ég þekki ekki náið og í nokkrum tilfellum var fólk taggað sem ég þekki ekki neitt. Allt fólk sem bersýnilega er ekki heima hjá sér. Sumar færslurnar voru merktar „public“ og þannig sýnilegar hverjum sem er en aðrar eingöngu fyrir vini. En þrátt fyrir það gat ég séð ferðalög nokkurra ókunnugra gegnum töggin.

Facebook er alveg stórkostlega lélegt í að halda aftur af persónuupplýsingum og það verður maður að hafa í huga þegar maður notar það. Ég hef það fyrir reglu á ferðalögum að birta engar myndir úr ferðum mínum fyrr en ég er kominn heim og ég bið ferðafélaga mína jafnframt að tagga mig ekki í myndum eða stöðuuppfærslum meðan á ferðalaginu stendur.

Ferðist örugglega, elsku vinir. Spennið beltin, blandið vægt í glösin og látið ekki heimsbyggðina vita að enginn sé að vakta verðmætin ykkar.