Ekki auglýsa að heimilið þitt sé mannlaust

checkinNú sem fyrr stundar illa gert fólk það að brjótast inn á heimili fólks meðan það er fjarri, sér í lagi um stórar ferðahelgar eins og Verslunarmannahelgina. Í hvert sinn sem ég sé vini mína „tékka sig inn“ á Facebook á skemmtilegum stöðum hérlendis og erlendis víkur öfund fyrir áhyggjum því með hverri slíkri Facebook-færslu er fólk að auglýsa það að enginn sé í húsinu þeirra.

Ég fletti niður Facebook-vegginn minn áður en ég skrifaði þetta og hafði ekki farið langt þegar ég taldi 10 ferðalagafærslur. Sumar voru frá vinum mínum sem ég þekki persónulega, einhverjar frá Facebook-vinum sem ég þekki ekki náið og í nokkrum tilfellum var fólk taggað sem ég þekki ekki neitt. Allt fólk sem bersýnilega er ekki heima hjá sér. Sumar færslurnar voru merktar „public“ og þannig sýnilegar hverjum sem er en aðrar eingöngu fyrir vini. En þrátt fyrir það gat ég séð ferðalög nokkurra ókunnugra gegnum töggin.

Facebook er alveg stórkostlega lélegt í að halda aftur af persónuupplýsingum og það verður maður að hafa í huga þegar maður notar það. Ég hef það fyrir reglu á ferðalögum að birta engar myndir úr ferðum mínum fyrr en ég er kominn heim og ég bið ferðafélaga mína jafnframt að tagga mig ekki í myndum eða stöðuuppfærslum meðan á ferðalaginu stendur.

Ferðist örugglega, elsku vinir. Spennið beltin, blandið vægt í glösin og látið ekki heimsbyggðina vita að enginn sé að vakta verðmætin ykkar.