Dálítil Facebook-saga

Fréttaveita Facebook vinnur út frá ákveðnu reikniriti sem skammtar þér uppfærslur eftir því sem það telur líklegt að þú viljir sjá. Þannig sjáið þið aðeins uppfærslur frá hluta þeirra sem eru á vinalistanum ykkar enda væru þær annars svo margar að þið kæmust ekki yfir að skoða þær allar. Það eru góðar hliðar og slæmar á þessu en Facebook gengur út frá samskiptum ykkar við Facebook-vinina og læk og komment á fréttaveitunni til að meta hvað á að birta. Þannig er flest efnið okkur þóknanlegt og enginn sér tilefni til að kvarta.

Þið getið gert tilraunir með þetta sjálf með því að fletta upp einhverjum af handahófi á vinalistanum sem jafnan birtist ekki á fréttaveitunni og lækað eða kommentað á nokkrar færslur hjá viðkomandi. Eða jafnvel kastað kveðju gegnum spjallið. Áður en langt um líður fara að birtast færslur frá þessum aðila á fréttaveitunni. Sniðugt, ekki satt?

En eftirlit Facebook er nánara en flestir gera sér grein fyrir. Hér er dæmi úr mínum raunveruleika.

Fyrir nokkru síðan var 5 ára sonur minn að tala í símann minn. Þegar símtalinu lauk fóru fiktiputtarnir af stað og hann valdi manneskju af tenglalistanum mínum og hringdi í hana án þess að átta sig á því.

Nokkrum mínútum síðar hringdi þessi manneskja í mig og spurði hvort ég hefði verið að reyna að hringja því hún hefði móttekið símtal frá mér en á línunni hefði bara verið þögn. Ég áttaði mig á því hvað hafði gerst og útskýrði það og símtalið varð ekki mikið lengra.

Þrátt fyrir að ég þekki þessa manneskju ágætlega erum við ekki í miklum samskiptum en erum þó vinir á Facebook. Þegar við tengdumst á Facebook fyrir einhverjum árum sá ég nokkrar uppfærslur frá henni en þar sem ég hvorki lækaði né kommentaði hvarf hún í myrkur reikniritsins og birtist ekki meira á fréttaveitunni.

En þegar ég settist við tölvuna þetta kvöld og opnaði vefinn tilkynnti Facebook mér að hún hefði uppfært prófílmyndina sína einhverjum vikum áður og birti mér til viðbótar stöðuuppfærslu frá henni.

Facebook fylgist nefninlega ekki bara með því sem þú gerir á Facebook.