Sítrónukjaftæði

Á vefsíðunni Spegill.is er grein eftir Heiðu Þórðar sem fjallar um áhrifamátt sítrónusafa og matarsóda gegn krabbameini. Í greininni, sem hefur fengið hátt í 10 þúsund deilingar, er sagt að fjölmargar rannsóknir hafi sýnt fram á „eiginleika sítrónunnar gegn krabbameini“ og að blanda af sítrónusafa og matarsóda sé öflugri en lyfjameðverð.

Vá! Það er aldeilis…

will-sasso-lemon-videoÉg velti því auðvitað fyrir mér hvers vegna öll sjúkrahús bjóði þá sjúklingum ekki frekar upp á að bíta í sítrónur frekar en að gangast undir þungbærar lyfjameðferðir, sem kosta auk þess talsvert meira en poki af sítrónum úr Bónus. Í leit að svörum opnaði ég tenglana sem vísað var í sem heimildir neðst í greininni.

Einn tengillinn opnaði síðuna Godlike Productions sem er spjallborð fyrir fólk sem skiptist á sögum af fljúgandi furðuhlutum, draugum og ægilegum samsærum hinna ráðandi afla. Þar á spjallþræði um hvernig heilun og fínstilling orkustöðvanna getur læknað krabbamein kom nafnlaus notandi með óstaðfesta sögu um hvernig pabbi hans læknaði sjálfan sig af krabbameini fyrir 50 árum með því að éta sítrónur.

Hmm, ókei. Allir vita að reynslusögur eru ekki marktæk vísindi, hvað þá á spjallborði þar sem allir virðast setja upp álhatta áður en þeir byrja að pikka. Greinarhöfundur hlýtur að vera að grínast eitthvað.

Best að skoða hinar heimildir greinarhöfundar. Næsti áfangastaður er vefsíðan Regenerative Nutrition og á henni er grein eftir Marc Sircus sem titlar sig OMD, en Google segir mér að það þýði að hann sé doktor í nálastungum og austurlenskum fræðum. Greinin byggir á litlu öðru en eigin vangaveltum og tilvitnunum í Dr. Simoncini, ítalskan lækni sem var fyrir 10 árum sviptur réttindum og sakfelldur fyrir svik og afglöp sem leiddu til dauðsfalls. Sá læknir hefur verið einn helsti talsmaður þess að krabbamein sé í raun sveppasýking sem megi lækna með sítrónum, matarsóda, sírópi og hvaðeina.

Staðreyndin er sú að ekkert hefur komið fram sem bendir til þess að krabbamein sé sveppasýking eins og hann og fylgjendur matarsódaátsins halda fram og ennfremur eru engar rannsóknir til sem sýna fram á að matarsódi hafi nokkuð að segja í baráttunni við krabbamein. Vitleysan í þessum náunga og þeim sem éta hana upp eftir honum hefur orðið til þess að t.d. American Cancer Society þurfa að halda úti grein á vefsvæði sínu til að bera þvæluna til baka.

En rúsínan í pylsuendanum er þriðji og síðasti tengillinn sem Heiða Þórðar vísar á. Hann fer inn á vefsíðuna Cancer Research UK, og þar sem tengillinn vísaði á forsíðuna þurfti ég að leita á síðunni að greinum sem nefna sítrónur og matarsóda og þá kom upp þessi heimild sem bendir sterklega til þess að þó Heiða sé skrifandi sé hún mögulega ekki læs:

Don’t believe the hype – 10 persistent cancer myths debunked“ þar sem segir meðal annars að „Internetið er drekkhlaðið myndböndum og persónulegum reynslusögum um náttúrulegar kraftaverkalækningar við krabbameinum. En stórkostlegar fullyrðingar krefjast afgerandi sannana og YouTube myndbönd og Facebook færslur eru ekki vísindaleg gögn til jafns við ritrýndar, vel gerðar rannsóknir.“

Já, þú last rétt. Máli sínu til stuðnings vísar Heiða Þórðar á vefsíðu sem segir að fólk eigi ekki að trúa bullgreinum eins og þeirri sem hún var að skrifa.

Eigum við ekki bara að taka þeim ráðum og hætta að dreifa þessu kjaftæði?

Auglýsingar

Skömm ÍRB

Fyrir nokkrum mánuðum setti foreldri íþróttaiðkanda í Reykjanesbæ þessa færslu á bloggsíðu: http://orditimatolud.blogspot.com/

Málið sem hér er reifað er klárt dæmi þess hve rotið kerfi íbúar Reykjanesbæjar hafa búið við undanfarin ár, þar sem fagleg úrvinnsla er lögð til hliðar til að þagga mál niður og passa upp á ímyndina út á við.

Þessu máli er lokið á pappírum. Í símtali sagði stjórnarmaður mér að það hefði verið dæmt félaginu í hag, að þau hafi gert allt sem í þeirra valdi stóð og að ekkert sé eftir til að ræða. Í stuttan tíma trúði ég þessum útskýringum stjórnarmannsins þar til ég sá „dóminn“ sem var ekki merkilegri en svo að málinu var vísað frá á þeirri forsendu að kærufrestur væri liðinn. Það er ekki efnisleg afstaða og eftir stendur óklárað mál sem ég ákvað að skoða þá aðeins betur.

Það er erfitt að eiga við svona mál og þá er alltaf gott þegar óháð fagfólk kemur að málunum eins og gerðist þegar ráðgjafahópur Æskulýðsvettvangs tók málið fyrir og komst að þeirri niðurstöðu að þjálfarinn hefði sýnt af sér óviðeigandi framkomu og að stjórnin hefði ekki tekið rétt á málum.

Ég er alveg sammála því að stjórnin hafi ekki tekið rétt á málunum. Vinnubrögð hennar voru öll í þá átt að ýta málinu til hliðar og hvítþvo félagið af þessu veseni. Stjórnin stóð þétt við bakið á þjálfaranum og sagði það opinberlega eins og þau væri komin í stríð. Hluti af stríðstaktík þeirra var að gera könnun meðal iðkenda um hvort þeir væru ekki bara sáttir með þjálfarana. Þannig virkar einelti 101. Einstaklingurinn sem ekki er þóknanlegur er einangraður og sýndur sem á skjön við fjöldann svo auðveldara sé að hunsa hann og brjóta á honum. Auðvitað er þessi iðkandi bara að bulla ef hinir eru sáttir. Ehaggi?

Ef ég og jafnaldrar mínir hefðum tekið þátt í könnun á grunnskólaárunum um viðhorf okkar til kennara hefði hún komið mjög vel út, því meirihlutinn var sáttur. Einn þeirra sem kenndi okkur tók auðvitað ekki alla fyrir heldur gerði miskunnarlaust grín að þeim sem voru auðveld skotmörk og var rosa vinsæll fyrir það hve fyndinn hann var. En það var einn kennari af mörgum sem tók fyrir örfáa nemendur af mörgum. Tölfræðilega séð er það ekki vandamál. Á pappírum lítur það vel út.

Á fundi hjá yfirstjórn íþróttafélagsins var sérstaklega bókað í kjölfar umræðu um þetta mál að félagið hafi gert margt til að leysa þetta mál og að ávallt beri að hafa hag iðkenda að leiðarljósi. Eitt af því sem stjórnin gerði meðan á þessu stóð var að setja saman skjal sér til varnar þar sem fjölskyldan var úthrópuð í löngu máli fyrir frekju og vonlausa samskiptahæfni við þjálfarann. Ef þið eruð í einhverjum vafa um að svona vinnubrögð sýni hvernig fagmennska víkur fyrir heift, þá megið þið staldra við þá vitneskju að skjalinu lauk á því að taka barnið sérstaklega fyrir með verulega ógeðfelldum ásökunum. Ég hef skjalið undir höndum en mér þykir það sem í því er þess eðlis að ég ætla ekki að vitna beint í það, sér í lagi barnsins vegna.

Þetta kom frá stjórninni sem segist hafa unnið af því hörðum höndum að leysa málið.

En svona virkaði þetta. Fundargerðirnar voru fallegar, sem er ekkert mál ef maður sleppir réttu hlutunum. Eins og til dæmis því þegar einn iðkandi fékk að mæta á fund hjá stjórninni til að fara ítarlega yfir trúnaðarbrest og niðurlægingar þjálfara hjá félaginu. Á hann var hlustað og svo ekki meir. Ekki stafur á bók og lífið heldur áfram. Haltu kjafti eða hættu í félaginu.

Svo kemur upp öðru hverju svona vesensfólk eins og þau sem skrifuðu bloggfærsluna sem ég tengi í hér að ofan. Fólk sem neitar að gefast upp þegar kerfið sameinast gegn þeim. Þau leituðu á náðir yfirmanna hjá Reykjanesbæ sem ýmist hummuðu málið fram af sér eða áframsendu hjálparbeiðnir foreldra og gögn sem þeim voru sent beint til stjórnarinnar án þess að rétta fram hjálparhönd. Á meðan nýtti stjórnin foreldrafundi til að etja fólki gegn þeim og iðkendur voru hvattir til að loka á samskipti við barnið sem dirfðist að andmæla. Svona lagað stendur ekki hver sem er af sér.

eineltishringurinn

Málið flæktist hingað og þangað í kerfinu og allir stilltu sér upp einhversstaðar í eineltishringnum. Gerendur voru virkir eða óvirkir og hlutlausir aðilar, allt frá þjálfurum og yfir í yfirstjórn bæjarins, vissu af því sem gerðist en ýmist vildu ekki eða þorðu ekki að aðhafast. Enginn innan bæjarbatterísins tók að sér hlutverk verndarans. Þolandinn stóð einn.

Íþróttabandalag Reykjanesbæjar má skammast sín fyrir málið og meðferð þess en mun líklega aldrei gera það. Blinda augað ræður för og allt er sagt til fyrirmyndar. Þegar ráðgjafavettvangurinn hafði skilað sínum áfellisdómi brást stjórnin við með því að þakka pent fyrir þessa skýrslu og sagðist mundu halda áfram að efla það góða starf sem þar væri unnið. Hún hafði sigur á endanum þegar iðkandin hraktist úr félaginu og allt lítur aftur vel út á yfirborðinu því nú er búið að gera eineltisáætlun.

Sá næsti sem verður fyrir einelti má þá rétt reyna að derra sig.