Foreldrar, takið ábyrgð!

Öðru hverju hafa fréttir birst um vefsíðu sem kallast ask.fm og allar fjalla þær um sama efni. Síðan, sem gerir fólki kleift að senda hvert öðru nafnlausar sendingar, er forarpyttur eineltis og ógeðfelldrar hegðunar.

Cyber-Bullying-Photo2Mörg dæmi hafa verið nefnd um það sem þarna á sér stað en til eru grófari dæmi en það sem ratar í fréttirnar. Notendur eru hvattir í fjöldapósti til að senda ákveðnum notendum ljót skilaboð svo þeir taki líf sitt. Unglingsstúlkur birta myndir af sér á nærfötunum til að safna like-um. Unglingar, sem eiga félagslega erfitt, eru skotmörk fólks sem sendir símanúmerin þeirra sín á milli og hvetur fólk til að hringja í þau með niðurlægingar milli þess sem óþverrinn dynur á síðunni þeirra. Krakkar sem hafa misst foreldra sína fá að heyra að það sé þeim að kenna því þau séu svo ógeðslegar manneskjur. Krakkar lýsa því opinskátt hvað þau hafa reynt í kynlífi og svara grófum spurningum um það og auglýsa jafnvel eftir bólfélögum.

Ég vildi að ég væri að ýkja en þetta eru allt raunveruleg dæmi. Og það er hérna sem maður spyr: Hvar eru foreldrarnir?

Foreldrar í dag verða einfaldlega að tileinka sér þá samskiptamiðla sem þeir leyfa börnum sínum að nota. Og þeir þurfa að taka upplýsta og skýra afstöðu til þess hvað má og hvað ekki. Friðhelgi barnanna skiptir auðvitað máli í þessu samhengi en ég er ekki að tala um að lesa einkaskilaboð heldur að fylgjast með því sem þegar er fyrir opnum tjöldum.

Ef foreldri ákveður að leyfa sínu barni að nota ask.fm ætti það að vera þeim skilyrðum háð að barnið gefi upp notendanafnið sitt svo foreldrarnir geti fylgst með því sem þar birtist. Ef það á ekki að leyfa notkun síðunnar er nákvæmlega ekkert að því að fá síma barnsins í hendurnar við og við til að athuga hvort appið sé þar inni eða skoða í netsögu heimilistölvunnar hvort síðan hafi verið heimsótt. Ef vilji barnsins til að fara á bak við foreldrana er einbeittur er þetta ekki skothelt plan en það er sannarlega betra en aðgerðaleysi.

Foreldrar þurfa einnig að vera á tánum gagnvart öðrum samskiptamiðlum. Tökum Snapchat sem dæmi. Með því appi senda notendur myndir sín á milli sem eyðast þegar þær hafa verið skoðaðar en margir notendur vista þær með hjáleiðum eða taka af þeim skjáskot. Gegnum þetta app eru sum börn að senda klæðalitlar myndir af sér hvert til annars í von um viðurkenningu eða athygli hins kynsins. Myndirnar eru gjarnan vistaðar hjá viðtakanda og mörg mál eru á borði lögreglu vegna þess að slíkum myndum hefur verið dreift á netinu.

Það er ekki það eina. Sumir notendur appsins, eins og t.d. erlenda klámstjarnan Sedgy Fergo, stunda það að senda nektarmyndir til allra sem skrá hana sem tengilið. Gríðarmargir unglingar eru með hana sem tengilið og fá reglulega klámskammta frá henni gegnum Snapchat.

Með þetta í huga ættu foreldrar að setjast niður með börnum sínum og fara yfir tengiliðina í appinu. Ef nafn á listanum tilheyrir ekki einhverjum sem barnið þekkir persónulega ætti það ekki að vera þar. Þetta er einföld regla.

Og svo er það Instagram. Ef barnið þitt er með Instagram ættirðu að followa það þar. Þá sérðu myndirnar sem settar eru þangað inn og þar sem þær eru hvort sem er fyrir breiðan hóp móttakenda ætti að vera sjálfsagt að þú sért þar á meðal. Það sem þolir ekki augu foreldra ætti ekki að fara fyrir augu tuga eða jafnvel hundruða þar sem hver sem eru getur tekið afrit og dreift því áfram.

Unglingar í dag eru jafnvel með tvo instagram aðganga, annan þeirra læstan. Sá fyrri er fyrir hversdagslegar myndir af hinu og þessu og hinn fyrir það sem þarf einhverra hluta vegna að vera prívat. Klæðalitlar myndir, fyllerísgrobb og slagsmálamyndbönd eru dæmi þess sem þar er vistað. Þetta efni, þrátt fyrir að vera læst, fer einnig fyrir augu hundruða sem fá aðgang gegnum samþykki notandans. Sumir eru kunnir þeim, aðrir ekki.

Svona lagað er ekki einkamál barnanna. Þetta eru ekki einkasamtöl heldur margmennur vettvangur sem foreldrar verða að vera meðvitaðir um og fylgjast með.

Ég legg til að foreldrar innan bekkja í grunnskólum geri með sér samkomulag um að fylgjast með á þessum vettvangi og vera virkir eftirlitsaðilar á samfélagsmiðlunum sem börnin þeirra nota. Að þeir upplýsi hver annan um þær síður sem eru í gangi innan hópsins og veiti hver öðrum aðstoð í að læra á þá, því öll erum við misjafnlega tæknivædd. Samstaðan skiptir öllu, því þá eru ekki einstaka foreldrar þeir leiðinlegu fyrir að fylgast vel með, heldur er það orðið eðlilegt.

Börn þurfa handleiðslu foreldra sinna. Líka á internetinu.

Auglýsingar

Með milljón á mánuði

Þegar álagningarskrár lágu frammi hjá skattinum fyrr á árinu gerði ég mér ferð í bæinn til að skyggnast inn í launaheim þeirra sem gegna toppstöðum hjá Reykjanesbæ. Ég reiknaði út úr skjalinu en gleymdi því svo þar til áðan og langar að deila með ykkur því sem þar var.

Útreikningar mínir byggja á því hvað fólk greiddi í útsvar á síðasta ári, en rétt er að hafa þann fyrirvara á að í sama reit er einnig auðlegðarskattur (1% af eigum yfir 75 milljónum) sem gæti skekkt niðurstöður ef um er að ræða stóreignafólk. Samanburður á tekjuskattsgreiðslum og útsvari/auðlegðarskatti benda þó ekki til þess að það sé málið en ég vildi þó nefna það.

Einnig er sá möguleiki fyrir hendi að framkvæmdastjórarnir hafi tíma aflögu til að sinna öðrum störfum sem gefa vel í aðra hönd og skýri niðurstöður mínar um laun þeirra en ef svo er óska ég ábendinga um það svo ég geti leiðrétt því ég vil auðvitað ekki fara með rangt mál

En allavega… Núna stendur Reykjanesbær frammi fyrir því að þurfa að leita að krónum í hverju horni til að rétta reksturinn af eftir áratuga sukk og sjálftöku fyrri stjórnenda. Ég á allt eins von á að framkvæmdastjórar sviðanna hætti að funda á lúxushótelum og að aðhalds verði gætt á þeirra sviðum en mér kemur í hug að kannski megi fara aðeins yfir launin þeirra.

Sitt sýnist auðvitað hverjum og það sem einum finnst sjálfsagt finnst öðrum forkastanlegt. Ég leyfi ykkur bara að dæma um það.

Lægst launaður er Stefán Bjarkason, framkvæmdastjóri íþrótta og tómstundasviðs. Hann fær litlar 877 þúsund krónur á mánuði fyrir sín störf, jafnt innan veggja ráðhússins sem utan.

Fast á hæla Stefáns kemur Hjördís Árnadóttir, fráfarandi framkvæmdastjóri fjölskyldu- og félagsþjónustusviðs. Hún er auðvitað bara að sinna okkar smæstu systkinum og hlýtur því fyrir það aumar 887 þúsund krónur á mánuði. Ef greiða ætti fyrir umfang sviðsins þykir mér að staða Hjördísar ætti að vera nær þeim sem hæst þiggja launin.

Pétur Jóhannsson, framkvæmdastjóri atvinnu- og hafnasviðs, þokar okkur nær meistaradeildinni í launagreiðslum með sínar 936 þúsund krónur á mánuði. Það er ekki auðvelt verk að hræra í skuldasúpu svo rétt er að verðlauna hann ríkulega fyrir það.

En Valgerður Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri menningarsviðs, safnar menningu frekar en skuldum og fær því meira greitt en Pétur, heilar 946 þúsund krónur á mánuði. Auðvitað.

En nú fyrst fara hlutirnir að skipta máli því við nálgumst óðfluga milljón króna markið með Gylfa Jóni Gylfasyni, framkvæmdastjóra fræðslusviðs. Hann fær 994 þúsund krónur á mánuði fyrir sín leiðtogastörf.

halloragnar

Á toppnum með yfir milljón krónur á mánuði sitja auðvitað þau sem sjá um steypu og peninga. Næstbestur í starfsliði framkvæmdastjóranna er Guðlaugur H. Sigurjónsson, framkvæmdastjóri umhverfis- og skipulagssviðs, grjóthleðslugúru og hringtorgafrömuður. Fyrir ötult starf sitt fær hann 1.026 þúsund krónur á mánuði.

Tæpum 30 þúsund krónum ofar trónir framkvæmdastjóri fjármála- og rekstrarsviðs, Þórey I. Guðmundsdóttir. Hún sér um peningana sem öllu máli skipta og fær því auðvitað mest eða 1.053 þúsund krónur á mánuði. Reyndar er það engin smá vinna að halda utan um fjármálaklúður fyrrverandi meirihluta svo hún verðskuldar kannski einna helst milljónkallinn sinn.

Verst bara að hún og Gylfi Jón búa bæði í Hafnarfirði svo að útsvarið þeirra, þrjár og hálf milljón á árinu 2013, fór beina leið úr bænum.

Ég ákalla nú þessa máttarstólpa stjórnkerfisins að sýna hve annt þeim er um bæinn sinn með því að færa laun sín niður í t.d. laun skólastjóra, sem sinna ekki síður ábyrgðarmiklu starfi og þiggja fyrir það rétt um 650 þúsund krónur á mánuði.