Með milljón á mánuði

Þegar álagningarskrár lágu frammi hjá skattinum fyrr á árinu gerði ég mér ferð í bæinn til að skyggnast inn í launaheim þeirra sem gegna toppstöðum hjá Reykjanesbæ. Ég reiknaði út úr skjalinu en gleymdi því svo þar til áðan og langar að deila með ykkur því sem þar var.

Útreikningar mínir byggja á því hvað fólk greiddi í útsvar á síðasta ári, en rétt er að hafa þann fyrirvara á að í sama reit er einnig auðlegðarskattur (1% af eigum yfir 75 milljónum) sem gæti skekkt niðurstöður ef um er að ræða stóreignafólk. Samanburður á tekjuskattsgreiðslum og útsvari/auðlegðarskatti benda þó ekki til þess að það sé málið en ég vildi þó nefna það.

Einnig er sá möguleiki fyrir hendi að framkvæmdastjórarnir hafi tíma aflögu til að sinna öðrum störfum sem gefa vel í aðra hönd og skýri niðurstöður mínar um laun þeirra en ef svo er óska ég ábendinga um það svo ég geti leiðrétt því ég vil auðvitað ekki fara með rangt mál

En allavega… Núna stendur Reykjanesbær frammi fyrir því að þurfa að leita að krónum í hverju horni til að rétta reksturinn af eftir áratuga sukk og sjálftöku fyrri stjórnenda. Ég á allt eins von á að framkvæmdastjórar sviðanna hætti að funda á lúxushótelum og að aðhalds verði gætt á þeirra sviðum en mér kemur í hug að kannski megi fara aðeins yfir launin þeirra.

Sitt sýnist auðvitað hverjum og það sem einum finnst sjálfsagt finnst öðrum forkastanlegt. Ég leyfi ykkur bara að dæma um það.

Lægst launaður er Stefán Bjarkason, framkvæmdastjóri íþrótta og tómstundasviðs. Hann fær litlar 877 þúsund krónur á mánuði fyrir sín störf, jafnt innan veggja ráðhússins sem utan.

Fast á hæla Stefáns kemur Hjördís Árnadóttir, fráfarandi framkvæmdastjóri fjölskyldu- og félagsþjónustusviðs. Hún er auðvitað bara að sinna okkar smæstu systkinum og hlýtur því fyrir það aumar 887 þúsund krónur á mánuði. Ef greiða ætti fyrir umfang sviðsins þykir mér að staða Hjördísar ætti að vera nær þeim sem hæst þiggja launin.

Pétur Jóhannsson, framkvæmdastjóri atvinnu- og hafnasviðs, þokar okkur nær meistaradeildinni í launagreiðslum með sínar 936 þúsund krónur á mánuði. Það er ekki auðvelt verk að hræra í skuldasúpu svo rétt er að verðlauna hann ríkulega fyrir það.

En Valgerður Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri menningarsviðs, safnar menningu frekar en skuldum og fær því meira greitt en Pétur, heilar 946 þúsund krónur á mánuði. Auðvitað.

En nú fyrst fara hlutirnir að skipta máli því við nálgumst óðfluga milljón króna markið með Gylfa Jóni Gylfasyni, framkvæmdastjóra fræðslusviðs. Hann fær 994 þúsund krónur á mánuði fyrir sín leiðtogastörf.

halloragnar

Á toppnum með yfir milljón krónur á mánuði sitja auðvitað þau sem sjá um steypu og peninga. Næstbestur í starfsliði framkvæmdastjóranna er Guðlaugur H. Sigurjónsson, framkvæmdastjóri umhverfis- og skipulagssviðs, grjóthleðslugúru og hringtorgafrömuður. Fyrir ötult starf sitt fær hann 1.026 þúsund krónur á mánuði.

Tæpum 30 þúsund krónum ofar trónir framkvæmdastjóri fjármála- og rekstrarsviðs, Þórey I. Guðmundsdóttir. Hún sér um peningana sem öllu máli skipta og fær því auðvitað mest eða 1.053 þúsund krónur á mánuði. Reyndar er það engin smá vinna að halda utan um fjármálaklúður fyrrverandi meirihluta svo hún verðskuldar kannski einna helst milljónkallinn sinn.

Verst bara að hún og Gylfi Jón búa bæði í Hafnarfirði svo að útsvarið þeirra, þrjár og hálf milljón á árinu 2013, fór beina leið úr bænum.

Ég ákalla nú þessa máttarstólpa stjórnkerfisins að sýna hve annt þeim er um bæinn sinn með því að færa laun sín niður í t.d. laun skólastjóra, sem sinna ekki síður ábyrgðarmiklu starfi og þiggja fyrir það rétt um 650 þúsund krónur á mánuði.