Af brennuvörgum og umræðuslagsíðu

Það kom loks að því að ég skrifaði eitthvað og auðvitað er það til að þenja mig. Mig langar að þenja mig svolítið yfir yfirvofandi launalækkunum í Ráðhúsi Reykjanesbæjar eða öllu heldur umfjölluninni um þær.

Fyrr í kvöld birtist frétt á DV um að óánægjueldar logi í Ráðhúsi Reykjanesbæjar vegna þeirra launaskerðinga sem starfsmenn horfa fram á. Í greininni er sérstaklega tekið fram að fólk sé óánægt með að bæjarfulltrúar taki aðeins á sig 5% launaskerðingu meðan hinn almenni launþegi í Ráðhúsinu horfi fram á 40-50% skerðingu.

Við skulum því byrja á að skoða staðreyndir. Hið fyrsta er að ef uppsögn á ógreiddri yfirvinnu og ónýttum ökutækjastyrk felur í sér 50% skerðingu launa er eitthvað gríðarmikið að í launamálum Reykjanesbæjar. Ég myndi gjarnan vilja sjá launaseðil þess sem sér fram á slíka lækkun. En því er auðvitað haldið utan við umræðuna að skerðingin á aðeins við um óunna yfirvinnu og greiðslur fyrir kílómetra sem ekki eru eknir. Fólk mun áfram fá greitt fyrir þá vinnu sem það innir af hendi og þá kílómetra sem það ekur vegna vinnu.

Ég hef fullan skilning á því að það sé slæmt högg að hafa tamið sér lífsstíl í samræmi við tekjur sem munu jafnvel skerðast en þeir starfsmenn sem nú hafa hæst um þetta láta eins og þetta hafi aldrei gerst áður. Þegar kreppti að í rekstri Reykjanesbæjar fyrir 6 árum var yfirvinna kennara skert meðal annars með því að láta eldri nemendur fá eyður frekar en forfallakennslu. Við misstum enga bitlinga til að hækka hjá okkur þau laun sem bærinn greiðir okkur að algjöru lágmarki en máttum bara ekki lengur vinna við það að þjónusta skjólstæðinga okkar. Ég minnist þess ekki að hafa orðið var við að eldar réttlætiskenndarinnar loguðu þá.

Það hafa margar stofnanir þurft að skera við nögl á undanförnum árum en þetta hefur kannski alltaf farið framhjá bæjarskrifstofunni. Okkar stjórnendur funduðu á sínum skrifstofum meðan framkvæmdastjórar Reykjanesbæjar funduðu á dýrum hótelum. Á meðan skólarnir reyndu að spara með því að klippa niður notaðan pappír í minnisblöð fékk bæjarskrifstofan sín minnisblöð sérprentuð. Forstöðumenn stofnana bæjarins hafa þurft að hagræða í rekstri með því t.d. að stytta opnunartíma leikskóla, karpa um þrifasamninga og láta sér lynda arfaslakan og illa endurnýjaðan tækjakost en í Ráðhúsinu eru sett upp raflásakerfi og splæst í fjúkandi dýrar hátískuljósakrónur.

Ég hef nákvæmlega ekkert á móti því góða fólki sem vinnur á gólfinu í Ráðhúsinu en hef hins vegar mikið að athuga við það hvernig haldið hefur verið á spöðunum í rekstri þess.

Þetta er auðvitað drullufúlt, jafnt fyrir þau sem alla þá starfsmenn sem hafa tekið á sig skerðingar á undanförnum árum. En þetta er afleiðingin af því að hafa lifað við lygar fyrri meirihluta undanfarin kjörtímabil. Það er búið að pretta almenning í bænum árum saman með talnabrellum og glansmyndum en nú hefur komist upp um lygina. Og afleiðingarnar eru hrikalegar. Það er samt ekki þeim að kenna sem sitja uppi með tiltektina. Það er ekki starfsmönnum bæjarskrifstofunnar um að kenna frekar en hinum almenna borgara en öll sitjum við uppi með að taka þátt í tiltektinni.

Næstum öll. Þeir eru nefninlega sumir sem gera hvað þeir geta til að spilla samtakamættinum og sá fræjum tortryggni með lýðskrumi og misvísandi staðhæfingum.

Til dæmis í umræðunni um laun kjörinna fulltrúa. Kristinn Jakobsson lagði til á bæjarráðsfundi að föst laun bæjarráðsmanna yrðu felld niður og að eingöngu yrði greitt fyrir fundarsetu. Hugmyndin hljómar kannski ágætlega á yfirborðinu en hún er ekkert annað en lýðskrum. Fyrir það fyrsta leggur Kristinn til niðurfellingu á einu laununum sem hann fær ekki, enda er hann áheyrnarfulltrúi í bæjarráði. Hann hefði getað lagt til að greiðslur fyrir fundarsetu yrðu lækkaðar eða felldar niður eða jafnvel laun bæjarfulltrúa. En hann gerði það ekki, enda hefði hann þá skert eigin kjör.

Þar fyrir utan er með eindæmum vitlaust að ætlast til þess að bæjarráðsmenn fái aðeins greitt fyrir fundarsetu því þeir inna af hendi gríðarmikla vinnu um þessar mundir við að bjarga bæjarfélaginu okkar frá þeirri kafsiglingu sem fyrri meirihluti stóð fyrir. Það er ekki sanngjarnt að ætlast til þess að fólk geri slíkt launalaust. Og greiðsla fyrir fundarsetu fer til þess sem mætir hverju sinni, óháð því hvort það er aðalfulltrúi, varafulltrúi eða áheyrnarfulltrúi, en vinnuframlag þeirra tveggja síðastnefndu er í engu samræmi við aðalfulltrúa.

Og svo eru það sjálfstæðismenn og klappstýrurnar þeirra sem eru víða. Grímulaust ganga bæjarfulltrúar flokksins fram í gagnrýni sem er eins og í þeirra fyrri valdatíð, í engu samhengi við raunveruleikann sem blasir við hugsandi fólki. Og framkvæmdastjórar hjá bænum opinberuðu sig margir sem helbláa stuðningsmenn fyrrum valdahóps með greinaskrifum, áróðursfundum í boði bæjarsjóðs og allskyns fegrunaraðgerðum rétt fyrir kosningar. Þetta fólk, sem vann gegn núverandi ráðamönnum í liðnum kosningum, stjórnar nú á bæjarskrifstofunni þar sem allt logar í óánægju. Það má alveg velta því fyrir sér hverjir bera olíu á eldinn sem væri jafnvel ekki svo mikill ef aðgerðirnar fengju að ganga í gegn áður en brjálæðiskastið byrjar. Eða ef fólk reyndi að skoða þær í stærra samhengi.

Þeir sem hatast út í núverandi meirihluta halda því hátt á lofti að bæjarfulltrúar þurfi bara að taka á sig skerðingu um 5% á föstum greiðslum meðan fótunum er kippt undan öllum öðrum. Með þetta eins og annað þarf að skoða hlutina í samhengi. Bæjarfulltrúar fá 67 þúsund krónur í fastar greiðslur og 37 þúsund fyrir fundarsetu. Fundir eru tvisvar í mánuði þannig að ef fastafulltrúi mætir á báða fundi fær hann 137 þúsund krónur á mánuði. Þeir vinna ötullega í þágu bæjarfélagsins á allskonar stundum og mörgum stöðum en fá ekki fasta yfirvinnu til að hífa tekjurnar upp og ekki heldur ökutækjastyrk. Með 5% skerðingunni verða mánaðarlaunin 133.850 krónur. Er það í alvörunni eitthvað til að æsa sig yfir í samanburði við allt að hundruða kílómetra ónýtta ökutækjastyrki og tuga tíma óunna yfirvinnu sem verið er að sneiða af öðrum?

Ég segi það aftur að ég skil gremjuna í fólki. En staðan sem blasir við býður ekki upp á aðra kosti. Núverandi minnihluti hefur ekkert að bjóða nema „hvað ef“ hagfræði sem er nákvæmlega ástæðan fyrir því að bærinn er núna í sögulega skelfilegri stöðu sem við þurfum öll að greiða fyrir.

Ef við ætlum að taka brjálæðiskast eigum við að beina því að ástæðum þess að við erum nú í þeirri stöðu að það þrengir að hjá öllum. Ekki út í þá sem eru að reyna að laga þetta bæjarfélag.

quote-William-Arthur-Ward-it-is-wise-to-direct-your-anger-36190

Auglýsingar

Léttum fátækum börnum jólin – söfnunin hefst

Þá nálgast jólin á ný og ég ætla að leggja í sama verkefni og á síðasta ári, að reyna að létta börnum í fátækum fjölskyldum jólin.

Það er hryggileg staðreynd að margar fjölskyldur á Suðurnesjum búa við sára fátækt og í þessum fjölskyldum eru börn sem fara því á mis við margt það sem við álítum sjálfsagt. Börn sem jólasveinarnir sneiða hjá þegar þeir dreifa gjöfum í skó á aðventunni og foreldrarnir þurfa að finna á því skýringar. Börn sem horfa þögul í gaupnir sér meðan jafnaldrar þeirra ræða nýjustu jólamyndina í bíó og fínheitin sem þau fengu í skóinn. Börn sem geta ekki tekið þátt í frjálsu góðgætisnesti í skólanum eða splæst límmiðum og glimmeri á jólakortin í skólanum.

Á hinum stóra mælikvarða lífsins gæða eru þetta smáir hlutir en ekki þegar maður lítur þá með augum barns. Þau hafa engan skilning á bótum, atvinnumissi eða vangaveltum um hvaðan næsta máltíð kemur. Þau eiga heldur ekki að þurfa þess. Ekki einasta ættu foreldrar að hlífa börnunum við slíku, heldur eigum við sem samfélag að gera það.

Á síðasta ári fékk ég semsagt þá hugmynd að kannski gæti ég hlaupið undir bagga með jólasveinunum svo ekkert barn þurfi að vakna við tóman skó. Háleitur draumur, en samt… Hvað ef einhverjum þætti þetta ekkert svo klikkað? Í bjartsýniskasti og trú á náungakærleik skrifaði ég stöðuuppfærslu á Facebook og kastaði fram þeirri hugmynd að ef fólkið sem hana læsi legði til peninga gætum við í sameiningu búið til pakka með skógjöfum og létt undir með þeim sem verst hafa það.

Undirtektirnar í fyrra voru vægast sagt frábærar. Tæp hálf milljón safnaðist í peningum auk þess sem fjölmargar tilbúnar gjafir bárust og allt í allt gat ég farið með hátt í tvö þúsund gjafir til Velferðarsjóðs Suðurnesja og Hjálpræðishersins þar sem þeim var dreift til jólaveina fyrir skógjafir og stærri gjafirnar fóru undir tré á tugum heimila auk þess sem börnin fengu gúmmelaðisnesti þegar svo bar við og fínerí til að taka þátt í kortagerð í skólunum sínum.

Framlag ykkar skipti sköpum fyrir svo marga um síðustu jól og nú langar mig að gera þetta aftur. Með hjálp fyrirtækja sem leyfa mér að versla á góðu verði getur til dæmis 3.000 króna framlag tryggt einu barni gjafir í skóinn frá öllum jólasveinunum, en öll framlög eru vel þegin því hver króna skiptir máli og þörfin er sannarlega mikil.

Þeir sem vilja taka þátt geta lagt inn á söfnunarreikning með númerið 0542-14-403565 á kennitölu 281080-4909.