Léttum fátækum börnum jólin – söfnunin hefst

Þá nálgast jólin á ný og ég ætla að leggja í sama verkefni og á síðasta ári, að reyna að létta börnum í fátækum fjölskyldum jólin.

Það er hryggileg staðreynd að margar fjölskyldur á Suðurnesjum búa við sára fátækt og í þessum fjölskyldum eru börn sem fara því á mis við margt það sem við álítum sjálfsagt. Börn sem jólasveinarnir sneiða hjá þegar þeir dreifa gjöfum í skó á aðventunni og foreldrarnir þurfa að finna á því skýringar. Börn sem horfa þögul í gaupnir sér meðan jafnaldrar þeirra ræða nýjustu jólamyndina í bíó og fínheitin sem þau fengu í skóinn. Börn sem geta ekki tekið þátt í frjálsu góðgætisnesti í skólanum eða splæst límmiðum og glimmeri á jólakortin í skólanum.

Á hinum stóra mælikvarða lífsins gæða eru þetta smáir hlutir en ekki þegar maður lítur þá með augum barns. Þau hafa engan skilning á bótum, atvinnumissi eða vangaveltum um hvaðan næsta máltíð kemur. Þau eiga heldur ekki að þurfa þess. Ekki einasta ættu foreldrar að hlífa börnunum við slíku, heldur eigum við sem samfélag að gera það.

Á síðasta ári fékk ég semsagt þá hugmynd að kannski gæti ég hlaupið undir bagga með jólasveinunum svo ekkert barn þurfi að vakna við tóman skó. Háleitur draumur, en samt… Hvað ef einhverjum þætti þetta ekkert svo klikkað? Í bjartsýniskasti og trú á náungakærleik skrifaði ég stöðuuppfærslu á Facebook og kastaði fram þeirri hugmynd að ef fólkið sem hana læsi legði til peninga gætum við í sameiningu búið til pakka með skógjöfum og létt undir með þeim sem verst hafa það.

Undirtektirnar í fyrra voru vægast sagt frábærar. Tæp hálf milljón safnaðist í peningum auk þess sem fjölmargar tilbúnar gjafir bárust og allt í allt gat ég farið með hátt í tvö þúsund gjafir til Velferðarsjóðs Suðurnesja og Hjálpræðishersins þar sem þeim var dreift til jólaveina fyrir skógjafir og stærri gjafirnar fóru undir tré á tugum heimila auk þess sem börnin fengu gúmmelaðisnesti þegar svo bar við og fínerí til að taka þátt í kortagerð í skólunum sínum.

Framlag ykkar skipti sköpum fyrir svo marga um síðustu jól og nú langar mig að gera þetta aftur. Með hjálp fyrirtækja sem leyfa mér að versla á góðu verði getur til dæmis 3.000 króna framlag tryggt einu barni gjafir í skóinn frá öllum jólasveinunum, en öll framlög eru vel þegin því hver króna skiptir máli og þörfin er sannarlega mikil.

Þeir sem vilja taka þátt geta lagt inn á söfnunarreikning með númerið 0542-14-403565 á kennitölu 281080-4909.