Laun fráfarandi framkvæmdastjóra Reykjanesbæjar

Þá er það komið í fréttirnar að búið sé að segja upp öllum framkvæmdastjórum Reykjanesbæjar. Af því tilefni langar mig að deila með ykkur upplýsingum um laun þess fólks, í þetta skiptið ekki áætlað út frá útsvari heldur skv. staðfestum upplýsingum frá Reykjaesbæ.

Laun framkvæmdastjóranna eru öllu jafnari en skattskýrslurnar bentu til. Allir hafa þeir 920.767 krónur í mánaðarlaun. Það þætti eflaust flestum nokkuð gott til að lifa af en Reykjanesbær bætir um betur með því að greiða þeim fasta greiðslu fyrir 1.200 kílómetra akstur í hverjum mánuði. Það gerir 134.983 krónur sem bætast við launin þeirra og skila þeim því 1.055.750 krónum á mánuði.

Tveir framkvæmdastjórar virðast snúast meira en aðrir því þeir fá 1.650 kílómetra greidda sem bætir 182.008 krónum við launin sem skilar þeim 1.102.775 krónum í heildarlaun. Þetta eru Guðlaugur H. Sigurjónsson hjá umhverfis- og skipulagssviði og Þórey I. Guðmundsdóttir, fjármálastjóri.

Einnig má halda því til haga að bæjarritari Reykjanesbæjar fær einnig greidda 1.650 kílómetra á mánuði skv. samningi og þegar því er bætt við 1.070.050 króna laun hans verða þau samtals 1.252.058 krónur á mánuði.

Á toppnum tróndi auðvitað Árni Sigfússon, fyrrverandi bæjarstjóri, með sína 2.000 kílómetra á mánuði, eða 214.750 krónur sem að viðbættum 65.057 krónum í risnufé og 1.301.141 krónum í mánaðarlaun skilaði honum 1.580.948 krónum í heildarlaun. giphy

Auglýsingar

Kostnaður við starfsmannafélög

Í október á síðasta ári sendi ég Reykjanesbæ erindi þar sem ég vildi fá að vita um þátttöku bæjarsjóðs í ferðakostnaði starfsmannafélags bæjarskrifstofunnar. Degi síðar frétti ég að fjármálastjóri hefði sent öllum stofnunum bæjarins bréf og sagt að ég færi fram á að fá yfirlit um þessa hluti frá hverri einustu stofnun bæjarins.

Um leið og ég frétti þetta sendi ég snarlega leiðréttingu. Frétti svo að fjármálastjóri væri í kjölfarið enn að krefja allar stofnanir um þessar upplýsingar svo ég leiðrétti þetta enn eina ferðina.

Næsta sem ég veit er að fjármálastjóri kvartar sáran við hvern sem vill á það hlusta að ég sé að skapa henni og starfsfólki ómælda vinnu við að grafa upp óheyrilegt magn af gögnum úr öllum áttum.

Eftir nokkur bréfaskrif um þetta mál vildi fjármálastjóri endilega að þessum gögnum yrði öllum safnað saman vegna þess að fyrst beðið væri um eina stofnun væri allt eins gott að allar gerðu það, þó ég hefði tekið skýrt fram að það væri ekki það sem ég vildi fá.

Þannig að… frekar en að ég sé að sitja á tölum sem ég bað ekki um, þá skil ég skjalið eftir hérna ef einhverjum öðrum þykir það áhugavert. Skiljið endilega eftir athugasemdir ef eitthvað vekur spurningar.

Smellið hér til að opna skjalið. 

Draugasaga

Fyrir mörgum árum sat ég í bíl úti við Garðskagavita. Nýbúinn að fá bílprófið og fór því allra minna leiða á bílnum hvort sem þess þurfti eða ekki. Að þessu sinni sat ég og át hamborgara kl. 2 að nóttu og naut þess að horfa út í myrkrið sem huldi hafið handan við varnargarðinn. Ég hafði heyrt sögur um draugagang við Garðskagavita en hafði ekki áhyggjur af draugum frekar en tröllum og drekum. Eins og til að storka örlögunum slökkti ég ljósin á bílnum og leyfði myrkrinu að umlykja bílinn og sat þar inni í daufri skímu frá ljósunum á mælaborðinu. Mér leið vel, frjáls eins og fuglinn með nýja bílprófið, og hallaði sætinu aftur og setti fæturna upp.

Ég hafði ekki setið lengi svona þegar ég heyrði, og fann, hvernig bankað var í bílstjórahurðina. Bank… bank… bank… þrjú högg heyrðust áður og hættu um leið og ég rauk upp úr sætinu og kveikti ljósin á bílnum. Ég þorði ekki að líta út um gluggann og bakkaði bílnum frekar til að sjá hvað þetta gæti verið.

Ekkert.

Það var ekkert að sjá. Enginn var þarna nema ég, hafið og myrkrið. Það hlaut eitthvað að hafa fokið á dyrnar. Það var eina mögulega skýringin. Ég neitaði að láta undan órökréttum ótta við eitthvað yfirnáttúrulegt svo ég ók bílnum aftur á sinn stað og hélt áfram að maula borgarann minn. Brátt náði ég aftur að slaka á og hallaði mér aftur með góða tónlist í útvarpinu. Ég slökkti ekki ljósin til öryggis. Ég var ekki fyrr búinn að koma mér aftur fyrir en það heyrðist afur, og ég fann það jafn greinilega og áður. Bank… bank… bank…

Þetta gat ég ekki skrifað á sjávarrokið. Ég rauk upp með andfælum og skellti bílnum í bakkgír og spólaði heilan hring á planinu til að sjá hvað eða hver væri að fela sig í myrkrinu og hrekkja mig með svona óþverralegum hætti. Ég sá ekkert.

„ÞAÐ HANGIR Á HURÐINNI!“ gargaði ég innra með mér og gaf allt í botn til að reyna að hrista af mér þessa óværu. Ég keyrði í loftköstum aftur inn í Garð og þorði ekki að líta í baksýnisspeglana fyrr en ég var kominn inn í bæinn og örugga birtuna af ljósastaurunum.

Þá sá ég það. Þegar ég hallaði mér aftur og setti fæturna upp lagði ég annað hnéð að hnappinum sem stýrði hliðarspeglunum á bílnum. Spegillinn bílstjóramegin færðist því þar til hann komst ekki lengur og byrjaði þá að hökta.

Þá heyrðist bank… bank… bank…

Desembersamantekt

Ég áttaði mig á því áðan að ég hef ekki skrifað stafkrók um hvernig söfnunin í desember gekk svo það best að koma því frá.

Í einu orði sagt stórkostlega!

En í fleiri orðum, þá safnaðist svipuð upphæð og í fyrra eða um hálf milljón. Ég keypti litlar skógjafir fyrir hátt í hundrað börn og notaði restina (sem var þorri upphæðarinnar) í að kaupa jólagjafir sem fóru í úthlutun hjá Velferðarsjóði þar sem um 150 börn eru á framfæri þeirra sem þiggja þar aðstoð. Þökk sé frábærum viðtökum ykkar og góðri aðstoð fyrirtækja sem ég verslaði við gat ég keypt margar og góðar gjafir sem gerðu jólagjafaúthlutun Velferðarsjóðs einstaka á landsvísu.

Gjafirnar ykkar fóru víðar, en um eitt hundrað manns sóttu Vinajól Hjálpræðishersins og fjölmargar gjafir fóru til skjólstæðinga þeirra. Auk þess heimsótti ég Vinasetrið, sem er stuðningsþjónusta og helgarvistun fyrir börn, og sendi öll börnin heim með jólagjafir.

Þúsund þakkir til ykkar allra sem tókuð þátt með fjárframlögum, gjöfum og útréttum hjálparhöndum. Takk fyrir að hugsa til allra þeirra sem glíma við erfiðleika og fyrir að létta undir með þeim. Þó jólin séu tíminn sem svona lagað nær hámarki á hverju ári skulum við muna að hafa augun opin allt árið um kring fyrir fólki sem þarf hjálparhönd og vera tilbúin að aðstoða. Brosum líka meira hvert til annars og verum óspör á hrós.

Takk!