Mikill er máttur bókanna

Frá því við komum til Svíþjóðar hefur Freyja haft takmarkað aðgengi að nýjum, íslenskum bókum. Hún hefur þegar lesið nær allar íslensku barnabækurnar sem í boði eru á bæjarbókasafninu hér í Lundi svo hún sneri sér fljótlega að sænskum bókum. Hún hefur á undanförnum 10 vikum lesið hverja sænska bókina á fætur annarri og lært sænsku á ógnarhraða samhliða því, en um daginn fór hún í sitt fyrsta próf í skólanum þar sem hún svaraði spurningum um víkingatímabilið. Auðvitað var allt á sænsku – námsbókin, prófið og svörin – og hún rúllaði því upp með toppeinkunn.

Þetta þakka ég fyrst og fremst bókalestri en áhugi hennar á bókum væri ekki svona mikill ef ekki væri fyrir frábæra fólkið sem skrifar þær. Fólk eins og Ævar Þór Benediktsson sem gerði börn um allt land gríðarspennt fyrir bókalestri með „Þinni eigin þjóðsögu“ í fyrra. Freyja mín hefur lesið þá bók svo oft að hvorugt okkar hefur á því tölu en hún hefur held ég farið í gegnum alla mögulega enda bókarinnar og suma oftar en einu sinni.

PicMonkey Collage

Í dag barst okkur þykkt, brúnt umslag frá Íslandi sem vakti auðvitað verðskuldaðan áhuga barnanna. Þegar ég sýndi henni að Ævar væri sendandinn hélt ég að hún færi yfirum þegar það rann upp fyrir henni hvað væri þá í umslaginu: „Þín eigin goðsaga.“

Hún hvarf umsvifalaust inn í stofu og sat þar fram að kvöldmat við lestur. Hún greip með sér skriffæri til að geta rakið sig til baka ef hún gerði vitleysu og svo heyrðist ekki meira í henni fyrir utan stöku upphrópanir þegar hún las dramatískar senur.

Hún lifði af fyrstu atrennu og lét Loka ekki plata sig. Ég spurði hana í seinni atrennu hvernig bókin væri og hún sagði „frábær!“ án þess að líta upp því hún var upptekin að skoða Ásgarð með Þjálfa.

Takk fyrir að gera lestur svona skemmtilegan, Ævar.

Auglýsingar