Takk fyrir traustið

Nú þegar þriðja jólasöfnunin er komin vel á veg langar mig að spreða nokkrum orðum í að segja hve ótrúlega þakklátur ég er fyrir það að fólk skuli treysta mér til að framkvæma það sem ég legg upp með.
Það er ekki sjálfsagt að treysta einhverjum náunga úti í bæ fyrir því að peningar sem maður leggur inn á reikning í hans eigu fari allur á réttan stað og ég er meðvitaður um það. Þess vegna hef ég passað vel upp á alla reikninga og greitt allt gegnum rekjanlegar leiðir. Allan aukakostnað, svo sem eins og fyrir Facebook auglýsingar sem ég prófaði í ár, hef ég greitt úr eigin vasa.
Svo allt sé uppi á borðum birti ég á hér á síðunni yfirlit yfir framlög og útgjöld sem ég uppfæri reglulega.
Best væri auðvitað ef ég væri stór og traustvekjandi stofnun með endurskoðanda og ársreikninga en ég er bara ég og geri það sem ég get. En með því að fá Velferðarsjóð Suðurnesja og Hjálpræðisherinn til liðs við mig get ég treyst því að það sem ég læt frá mér fer þangað sem þess er virkilega þörf.
Hjartans þakkir til ykkar sem hafið þegar lagt söfnuninni lið. Það eru á annað hundrað börn á Suðurnesjum sem búa við skort og það er ómetanlegt að geta verið hluti af sameiginlegu átaki okkar til að veita ljósi inn í líf þeirra um jólin.

Auglýsingar