Fókus

Fjórir og hálfur mánuður að baki í Svíþjóð. Næstum fimm mánuðir síðan ég seldi húsið, bílinn og búslóðina og flutti til Svíþjóðar til að læra í háskólanum í Lundi. Verð bráðum kominn með tvær háskólagráður af fimm.

Það hefur ekki verið sérlega erfitt að aðlagast lífinu hér. Ég er reyndar enn að aðlagast því að vera ekki stöðugt að greiða reikninga. Öðru hverju læðist að mér sá grunur að ég hljóti að vera að gleyma einhverju. Ég borga leiguna, 150 kall á mánuði fyrir 130 fermetra, frístundavistun fyrir börnin og … já. Það er allt. Frístundavistunina fæ ég rúmlega greidda til baka með barnabótum um hver mánaðarmót þannig að það telst varla með.

Að hluta er ég líka að aðlagast því að vera farinn úr því að eiga hús og í að leigja íbúð. Það er nokkuð notalegt. Splæsti þrjátíuþúsundkalli í tryggingu fyrir árið og síðan ekki söguna meir. Þegar ég drekk morgunkaffið á svölunum sé ég fólkið sem starfar fyrir húseignarfélagið vappa hér um og sópa planið, klippa trén eða safna haustlaufum. Það lak meðfram þéttingu á ofni hjá mér í gær og áður en ég vissi af var náungi kominn og farinn, búinn að redd’essu.

En alltaf læðist að mér sá grunur að ég ætti að vera borga meira. Kannski er það líka vegna þess að ég á ekki lengur bíl. Hér eru hjólastígar um allt þannig að ég splæsi bara öðru hverju í strætó eða lest. Það tók mig fyrstu 2 mánuðina að spreða í jafnvirði bensíntanks.

Að fá debetkort í hendurnar og horfa ekki fram á að borga fyrir hvert skipti sem ég renni því var jafn flippuð upplifun fyrir mig og þegar ég fór fyrst eftir pylsubrauðum út í búð og sá að ég átti ekki bara að kaupa Myllubrauð og fokka mér. Ég gat keypt heilkorna, fjölkorna, saffran, stór, lítil, dökk, ljós, með sesamfræjum… Og frá mörgum framleiðendum. Þetta á sem betur fer ekki bara við pylsubrauð. Ég sé ekki eftir einum einasta meter sem ég þarf að feta mig eftir risavöxnum mjólkurkælinum til að velja tegundina, framleiðandann og upprunann sem ég er til í hverju sinni.

Þetta er alveg ágætt.

Og allt gefur þetta manni aðra sýn á tilveruna. Ég hef fengið að fjarlægjast verksmiðjuvæðingu heimabæjar míns, skattpíninguna þar í boði Sjálfstæðissukkara fyrri ára og allar áhyggjur af því hvort ríkisstjórnin ætli að fara með mig beina leið til bandsjóðandi helvítis fljótlega eða seinna. Svíþjóð á sín vandamál en ég er enn um sinn alsæll í fáfræði minni og hef enga þörf fyrir að skrifa um eða æsa mig yfir nokkru yfirleitt.

Tímabilið sem varð til þess að ég opnaði Facebook-síðu sem snerist um að spyrna fótum gegn meðvirkni fólks í bænum mínum er núna að baki og ég er búinn að loka henni. Ég er hættur að ítreka margra mánaða gamla tölvupósta til núverandi bæjarstjórnar um milljónapartýsukk og stóriðjugreiða bara til að ergja mig á því í bloggfærslum.

Maður verður bara pirraður á svona vitleysu og það er allt of fallegt haustið hérna í Svíþjóð til að eyða tíma í annað en að njóta þess.

focus

Auglýsingar

Svona falsaði Útvarp Saga niðurstöðurnar

Ég trúi ekki að ég sé að skrifa um þetta. En þar sem þessi vinkill hefur að því er mér finnst ekki komið nógu skýrt fram í fjölmiðlum get ég ekki á mér setið.

Meðan Útvarp Saga birti könnunina um Bubba Morthens rauk þátttakan í yfir 40 þúsund atkvæði á einni nóttu, nær öll með Bubba. Það skýrist af því að í samræmi við annað drasl sem kemur frá þessari útvarpsstöð þá er síðan þeirra með handónýtt kosningakerfi sem takmarkar ekki hve oft hægt er að kjósa. Einn sprellikall eða -kelling með tölvukunnáttu í meðallagi getur sett af stað fjölva sem smellir á atkvæði út í hið óendanlega.

En líkt og hendi væri veifað breyttust niðurstöður kosningarinnar þannig að yfirgnæfandi meirihluti var nú gegn Bubba. Vísir hefur velt upp pælingum um að skífan með svarhlutfallinu sé með annarri litaskiptingu en venjulega en svarið liggur í augum uppi.

bubbamálið 3Vinstra megin er skjáskot Vísis frá því að könnunin fór í loftið og hægra megin er könnunin eins og hún lítur út í dag. Arnþrúður einfaldlega skipti um texta í reitunum og víxlaði „já“ og „nei“ þegar niðurstaðan var henni ekki þóknanleg.

Mér finnst hálf kjánalegt að skrifa um þetta, því þetta er svo ómerkileg og barnaleg hegðun að allt innra með mér segir mér að hunsa þessa bjána. En þetta er einelti, og það er fjölmiðill sem stendur grímulaust á bak við það. Arnþrúður kvartar yfir því að vera lögð í einelti þegar fólk talar gegn rasismanum og smásálarhættinum sem þessi útvarpsstöð stendur fyrir en sannleikurinn er sá að hún er eineltisdólgur af verstu sort.

Alvarlegar ásakanir – til hvers?

Árið 2010 lögðu bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar fram eftirfarandi tillögu sem meirihlutinn felldi:

Samfylkingin í Reykjanesbæ leggur til að bæjarstjórn Reykjanesbæjar skipi nefnd þriggja óháðra sérfræðinga sem hafi það verkefni að yfirfara stjórnkerfi og stjórnsýslu Reykjanesbæjar.

Nefndin fái fullan aðgang að skjalasafni Reykjanesbæjar og öllum gögnum er varða stjórnsýslu bæjarins. Þá leiti hún upplýsinga hjá aðilum utan stjórnkerfisins eftir þörfum.

Nefndin leggi fram starfsáætlun fyrir 01.nóvember 2010, þar sem fram komi m.a. umfang og áherslur í starfinu, auk áætlaðs kostnaðar.

Lokaskýrsla nefndarinnar liggi svo fyrir eigi síðar en 01.apríl 2011. Bæjarráð ákveður þóknun nefndarinnar.

Aðalverkefni nefndarinnar verði:
– Að kanna stjórnsýslu bæjarins og aðkomu stjórnmálamanna að fjárhagslegum ákvörðunum á undanförnum árum með tilliti til þess hvort gætt hafi verið eðlilegrar hlutlægni og heiðarleika í þeim afskiptum.
– Að kanna hvort einstakir aðilar eins og verktakar, bankar og fyrirtækjasamsteypur hafi fengið óeðlilega fyrirgreiðslu.
– Að kanna hvort fjársterkir aðilar hafa beint eða óbeint haft áhrif á pólitískar ákvarðanir og stjórnsýslu bæjarins.
– Að kanna hvort fjársterkir aðilar hafi hagnast á tengslum við bæinn og einstaka embættismenn eða bæjarfulltrúa.
– Að kanna hvort einstakir embættismenn, bæjarfulltrúar eða frambjóðendur til bæjarstjórnar hafi hagnýtt sér persónulega eða í þágu síns flokks tengsl við fjársterka aðila sem hafa átt í viðskiptum við bæinn.
– Að koma með ábendingar og tillögur að breytingum á reglum, vinnubrögðum og skipulagi stjórnsýslu bæjarins eða eftir atvikum að koma fram með ábendingar um breytingar á þeim lagaramma sem sveitarfélögin starfa eftir.

Friðjón Einarsson, Guðný Kristjánsdóttir, Eysteinn Eyjólfsson

Nú er nýr meirihluti með aðkomu Samfylkingar búinn að sitja í 1 ár og mér þætti alveg tilvalið að þetta yrði tekið upp aftur. Hafi Friðjón og hans fólk talið tilefni til þess á sínum tíma ætti það enn að vera gilt og full ástæða til að fylgja því eftir.

Bæjarstjórnin hefur reynt að haga málum þannig að ota ekki fingrum og Kjartan Már sló upphafstóninn í því þegar hann núllaði út allar ásakanir kosningabaráttunnar um fjármálaóreiðu með því að segja til lítils að horfa í baksýnisspegilinn í einu af sínum fyrstu viðtölum í embætti. Svo var blásið til sóknar sem virðist einhversstaðar hafa beygt ofan í skurð vegna þess að bæjarstjóri hefur ekki uppfært upplýsingapistlana þar um á vefsíðu bæjarins í hálft ár ef frá er talinn einn pistill í júlí um skattsvikara bæjarins.

Ég birti þessa mynd á síðunni minni fyrir síðustu kosningar vegna þess að allir gerðu grín að Sjálfstæðismönnum fyrir að vilja ekki tala um fortíðina. Það reyndist smitandi.

Ég birti þessa mynd á síðunni minni fyrir síðustu kosningar vegna þess að allir gerðu grín að Sjálfstæðismönnum fyrir að vilja ekki tala um fortíðina.
Það reyndist smitandi.

Fólk taldi sig vera að kjósa baráttufólk fyrir opinni stjórnsýslu og heiðarlegum vinnubrögðum en þegar fólk færist um stól í fundarherberginu á Tjarnargötu 12 er eins og hugsjónirnar fylgi ekki með.

Fólkið sem reytti hár sitt eitt sinn yfir bókhaldsprettum, klúðri og valdníðslu embættismanna endurréði þá svo og talar um að ekki megi dvelja við fortíðina. Það boðar ekki gott.

Það er sjálfsagt að dvelja ekki svo mikið við baksýnisspegilinn að maður komist ekki áfram en núverandi meirihluti ber ábyrgð gagnvart bæjarbúum öllum að opna stjórnsýsluna upp á gátt og sýna það sem við ekki máttum sjá á sínum tíma svo við getum vitað hvernig bænum okkar var stjórnað og hvers vegna bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar komu fram með svona alvarlegar ásakanir árið 2010. Það er eitt og nógu slæmt að bæjarfulltrúum minnihlutans hafi ekki tekist að varpa ljósi á hvernig bæjarfélaginu okkar var stjórnað á sínum tíma en djöfullegt er það þegar þetta sama fólk hættir við um leið og það fær til þess umboð.

Var þetta bara leikrit til að ná völdum?

Annað prestskjör í Reykjanesbæ?

KeflavíkurkirkjaUpp er komin sérstök staða í leit Keflavíkurkirkju að presti til starfa við kirkjuna. Eins og Víkurfréttir greindu frá á dögunum gengur fólk nú í hús til að safna undirskriftum til að fara fram á prestskosningu, en heimild til slíks er í starfsreglum Þjóðkirkjunnar og sérstaklega tilgreind í auglýsingu um starfið. Það var einmitt í samræmi við þær reglur sem stuðningsfólk sr. Erlu fór fram á kosningu sem á endanum tryggði henni embættið en nú er uppi ágreiningur um hvort söfnun á rétt á sér.

Það eru nokkur göt í umræðunni sem ég hef verið að reyna að fylla upp í, sjálfum mér til skemmtunar og vonandi einhverjum til upplýsingar.

Ráðningarferlið – fyrsta lota

Þannig er að auglýst var eftir presti í febrúar á þessu ári á sama tíma og auglýst var eftir sóknarpresti en af einhverjum ástæðum dróst ráðningarferli prests langt umfram heimildir og á endanum fór svo að valnefnd, skipuð fulltrúum sóknarnefndar og fulltrúum Biskups, mælti einróma með einum umsækjenda í starfið. Hann skulum nú við kalla „umsækjanda A“ til einföldunar.

Í auglýsingunni, sem birt var í febrúar, er sérstaklega tekið fram að við valið verði rík áhersla lögð á kunnáttu og reynslu af starfi með börnum og ungmennum. Með hliðsjón af því hafnaði Biskup ráðningunni og vísaði í 10. grein starfsreglna um val og veitingu prestsembætta. Þar stendur m.a. eftirfarandi:

„Við matið skal valnefnd leggja til grundvallar guðfræðimenntun, starfsreynslu, starfsferil svo og hæfni til boðunar og sálgæslu og samskiptahæfni umsækjanda og hvernig umsækjendur uppfylli sérstök skilyrði eða sérstaka hæfni ef slíkt er áskilið í auglýsingu.“

Biskup mat það svo að umsækjandi A uppfyllti skilyrðin ekki betur en aðrir umsækjendur sem höfðu nær allir talsvert meiri reynslu en hann af barna- og unglingastarfi og hafnaði því ráðningunni enda væri hún brot á starfsreglum.

Auk ofangreindra annmarka stendur umsækjandi A nokkrum öðrum umsækjendum aftar hvað varðar bæði menntun og starfsreynslu þannig að það er ljóst að hann uppfyllir ekki skilyrðin sem starfsreglur valnefndar tilgreina. Þetta virðist nefndin hafa verið meðvituð um enda byggir hún rökstuðning valsins nær einvörðungu á huglægu mati ef frá er talin fullyrðing um hve vel umsækjandinn uppfylli skilyrði um barnastarf, sem er beinlínis röng. Í skjölum nefndarinnar er ennfremur vísað í matsblöð og stigagjöf en þau hefur enginn umsækjenda fengið að sjá.

Enginn valinn – aftur auglýst

13. grein starfsreglna um val og veitingu prestsembætta gefur Biskupi – auk valds til að hafna tilnefndum aðila – svigrúm til að velja hæfari umsækjanda, framlengja umsóknarfrest eða auglýsa embættið að nýju. Ekkert varð úr fyrsta og öðrum kosti svo nauðsynlegt var að auglýsa embættið að nýju.

Í nýju auglýsingunni var tekin út krafan um reynslu af barnastarfi, sem er kannski skiljanlegt þar sem reynd manneskja á því sviði er nú sóknarprestur og nú megi einblína á aðra kosti.

Ég hef rætt við ýmsa aðila tengda þessu máli á undanförnum dögum og sú skoðun er útbreidd að ávallt hafi staðið til að ráða umsækjanda A, jafnvel áður en umsóknarferlið hófst. Sú fullyrðing ein og sér hljómar eins og úr lausu lofti gripin en þrennt gefur henni byr undir vængi. Í fyrsta lagi, þó léttvægt sé, að í nýju auglýsingunni hafi verið fjarlægð ein hindrun sem er á að umsækjandi A fái starfið. Í annan stað að enginn umsækjenda sem ég hef rætt við kannast við að haft hafi verið samband við meðmælendur í umsóknarferlinu og í þriðja lagi það að þegar valnefndin kom saman til að ræða við umsækjendur var skv. fundargerð einum nefndarmanni umhugað að vita í upphafi fundar hvort umsækjendur gætu farið fram á rökstuðning ákvörðunarinnar.

Of langt seilst? Ég veit það ekki. Ég get ekki – sama hvað ég pæli í þessu yfir uppvaski, á klóinu, undir sæng eða úti að ganga – fengið það út hvers vegna það sé umhugsunarefni í eðlilegu og löglegu ferli hvort umsækjendur fái að sjá rökstuðning stjórnsýsluákvörðunar.

En nóg um það.

Krókur á móti bragði?

Embættið var semsagt auglýst að nýju og umsóknarfrestur rennur út 7. ágúst. Í millitíðinni fór hópur fólks í Reykjanesbæ af stað til að safna undirskriftum þeirra sem vilja að fram fari prestskosning. Víkurfréttir afgreiddu þá söfnun í slúðurfréttastíl og birtu sögusagnir innhringjenda sem sögðu að fólk úr Njarðvíkursókn væri að með blekkingum að safna nöfnum og að sóknarpresturinn í Njarðvík stæði örugglega að þessari söfnun. Því var svo auðvitað bætt við að dóttir prestsins hefði verið meðal umsækjenda.

Víkurfréttir höfðu hvorki samband við sóknarprestinn í Njarðvík né dóttur hans áður en greinin var birt og höfðu heldur ekki fyrir því að hafa uppi á ábyrgðarmanni söfnunarinnar, Leifi A. Ísakssyni. Svo skemmtilega vill til að hann er með lögheimili í póstnúmeri 230, er fyrrum sóknarnefndarmeðlimur og meðhjálpari í Keflavíkurkirkju og er ekkert að fela ábyrgð sína á söfnuninni, enda hefur hann birt tvær greinar í Víkurfréttum til að tala máli þeirra sem fara fram á kosningu. Leifur er meðal þeirra fjölmörgu sem ég hef rætt við og hann þvertekur fyrir að krafa um kosningu sé til að greiða götu Maríu í embættið.

Segir hann satt?

Skiptir það máli?

Kirkja fólksins

„Keflavíkurkirkja hefur frá upphafi verið kirkja fólksins. Sjálfboðaliðar hafa þar gegnt mikilvægu hlutverki og í raun verið í burðarhlutverki. Fer vel á því að fólkið taki með beinum hætti þátt í því að velja sér prest. Það er mögulegt samkvæmt reglum um val á presti en þá þarf minnst þriðjungur atkvæðisbærra sóknarbarna að setja nafn sitt á undirskriftarlista þar sem farið er fram á almennar kosningar. […] Við hvetjum Keflvíkinga til að sameina krafta sína og fara fram á að almennar prestkosningar fari fram í sókninni. Þá getum við sjálf valið okkur manneskju, óbundin af þeim reglum sem gilda um val á opinberum embættismönnum. Kirkja fólksins á að fá að velja sér þann prest sem þar á að þjóna.“

Svo hljóðaði hluti greinar sem birtist í Víkurfréttum í febrúar á þessu ári. Þá skrifaði fólk sem vildi kosningu um sóknarprest svo hægt væri að koma að þeirri manneskju sem meirihluta sóknarbarna þóknaðist og það var ljóst frá upphafi. Reyndir guðfræðingar og prestar drógu sig til hlés og Erla var ein í framboði. Ef kosningar fara aftur fram er deginum ljósara að utanbæjarfólk á við ramman reip að draga gegn heimakonunni Maríu kjósi hún að bjóða sig fram. En ef hún sigrar, hefur þá ekki vilji fólksins sigrað að nýju?

Sami hópur og barðist fyrir kosningu í febrúar berst nú gegn henni því vilji fólksins skiptir í þetta skiptið minna máli en vilji 10 manna valnefndar og auðvitað sóknarprestsins sem skv. reglum hefur umsagnarrétt en ekki atkvæðisrétt. Það er vissulega sjónarmið í málinu að sóknarpresturinn og lykilfólk sóknarinnar eigi að geta handvalið í embættið því á litlum vinnustað skiptir gott samspil miklu máli.

En það skiptir líka máli að leika eftir reglum og það var ekki gert í þessu tilfelli. Niðurstaða valnefndar var á skjön við þá reglugerð sem hún starfar eftir og Biskup lék eftir reglunum þegar hún hafnaði henni.

Þeir sem berjast gegn kosningunni segja að margir mjög hæfir guðfræðingar og prestar hafi lýst áhuga á embættinu nú þegar það verður auglýst að nýju en vilji ekki taka þátt verði kosið um embættið, en slíkt muni veikja þjónustu Keflavíkurkirkju. Það gleymist að nefna að það voru líka margir mjög hæfir guðfræðingar sem sóttu um þessa stöðu í fyrsta umsóknarferli en gengið var framhjá þeim. Ef tilgangur þessa alls er að velja mjög hæfan guðfræðing í starfið hefði mátt komast hjá þessu veseni með því að velja einhvern hinna löglegu umsækjenda í fyrstu tilraun. Einhverra hluta vegna var það ekki gert.

Þegar allt ofangreint er tekið saman lítur út fyrir að í Keflavík sé í uppsiglingu barátta tveggja fylkinga. Hvað svo sem skrifað er um lýðræðishugsjón og fagmennsku þá stendur það eftir að sigur hvorrar fylkingar leiðir væntanlega aðeins til einnar mögulegrar niðurstöðu. Það held ég að báðir aðilar viti þó hvorugur viðurkenni það.

En það er bara mín skoðun.

Saga úr stjórnsýslunni

Eftirfarandi setti ég upphaflega sem komment á Facebook-þráð en finnst það eiginlega verðskulda sína eigin bloggfærslu, enda merkileg saga um stjórnsýslu og sérkennilega tímaröð atburða: „Eins og einhverjir muna bárust fréttir af byggingu nýs gagnavers á Patterson svæðinu í maí á síðasta ári. Í byrjun júní hafði ég samband við bæjarskrifstofuna og spurði hvort ég mætti sækja eintak af byggingarleyfinu fyrir gagnaverið. Hjá USK (umhverfis- og skipulagssviði) var mér ýmist sagt að ég mætti ekki fá það (sem stangast á við upplýsingalög) eða þá að sá sem ég talaði við (ritari USK) hefði ekki aðgang að skjölunum. Allir sem ég talaði við stömuðu einhverja afsökun fyrir því að ég gæti ekki fengið afrit af byggingarleyfinu. Seinna sama dag fékk ég símtal frá manni sem gegnir ábyrgðarstöðu fyrir einn af flokkum nýja meirihlutans og hann bað mig að gramsa ekki í þessu því það gæti valdið skaða sem væri óþarfur. 6. júní sendi ég svo formlega fyrirspurn og þrjár vikur liðu án þess að Umhverfis- og skipulagssvið svaraði erindi mínu en þá fékk ég loks bréf um að ekki hefði verið gengið frá gatnagerðargjaldi og því lægi byggingarleyfi ekki fyrir. Ég spurði hvort það væri ekki verið að byggja þarna uppfrá og hvort byggingarleyfi væri ekki forsenda þess. Ekkert svar barst. Ég ítrekaði viku seinna og fékk ekkert svar. Þá var kominn júlí. 13. nóvember sendi ég aftur ítrekun, rúmum fjórum mánuðum síðar. Ekkert mætti mér nema þögnin.

„Ef við höfum alveg hljótt missir hann kannski áhugann.

„Ef við höfum alveg hljótt fer hann kannski og lætur okkur vera.“

8. desember, hálfu ári eftir fyrstu beiðni, sendi ég enn eitt bréfið og minnti á skyldu USK skv. upplýsingalögum. Þann dag barst mér loks afrit af byggingarleyfi sem gefið var út 14. júlí, 2 mánuðum eftir að framkvæmdir hófust.“ Þar sem formaður umhverfis- og skipulagssviðs Reykjanesbæjar var í umræðunni bað ég hann að segja skoðun sína á vinnubrögðunum og bíð þolinmóður svars

-> Tengill í téðan umræðuþráð.