Mikill er máttur bókanna

Frá því við komum til Svíþjóðar hefur Freyja haft takmarkað aðgengi að nýjum, íslenskum bókum. Hún hefur þegar lesið nær allar íslensku barnabækurnar sem í boði eru á bæjarbókasafninu hér í Lundi svo hún sneri sér fljótlega að sænskum bókum. Hún hefur á undanförnum 10 vikum lesið hverja sænska bókina á fætur annarri og lært sænsku á ógnarhraða samhliða því, en um daginn fór hún í sitt fyrsta próf í skólanum þar sem hún svaraði spurningum um víkingatímabilið. Auðvitað var allt á sænsku – námsbókin, prófið og svörin – og hún rúllaði því upp með toppeinkunn.

Þetta þakka ég fyrst og fremst bókalestri en áhugi hennar á bókum væri ekki svona mikill ef ekki væri fyrir frábæra fólkið sem skrifar þær. Fólk eins og Ævar Þór Benediktsson sem gerði börn um allt land gríðarspennt fyrir bókalestri með „Þinni eigin þjóðsögu“ í fyrra. Freyja mín hefur lesið þá bók svo oft að hvorugt okkar hefur á því tölu en hún hefur held ég farið í gegnum alla mögulega enda bókarinnar og suma oftar en einu sinni.

PicMonkey Collage

Í dag barst okkur þykkt, brúnt umslag frá Íslandi sem vakti auðvitað verðskuldaðan áhuga barnanna. Þegar ég sýndi henni að Ævar væri sendandinn hélt ég að hún færi yfirum þegar það rann upp fyrir henni hvað væri þá í umslaginu: „Þín eigin goðsaga.“

Hún hvarf umsvifalaust inn í stofu og sat þar fram að kvöldmat við lestur. Hún greip með sér skriffæri til að geta rakið sig til baka ef hún gerði vitleysu og svo heyrðist ekki meira í henni fyrir utan stöku upphrópanir þegar hún las dramatískar senur.

Hún lifði af fyrstu atrennu og lét Loka ekki plata sig. Ég spurði hana í seinni atrennu hvernig bókin væri og hún sagði „frábær!“ án þess að líta upp því hún var upptekin að skoða Ásgarð með Þjálfa.

Takk fyrir að gera lestur svona skemmtilegan, Ævar.

Auglýsingar

Fókus

Fjórir og hálfur mánuður að baki í Svíþjóð. Næstum fimm mánuðir síðan ég seldi húsið, bílinn og búslóðina og flutti til Svíþjóðar til að læra í háskólanum í Lundi. Verð bráðum kominn með tvær háskólagráður af fimm.

Það hefur ekki verið sérlega erfitt að aðlagast lífinu hér. Ég er reyndar enn að aðlagast því að vera ekki stöðugt að greiða reikninga. Öðru hverju læðist að mér sá grunur að ég hljóti að vera að gleyma einhverju. Ég borga leiguna, 150 kall á mánuði fyrir 130 fermetra, frístundavistun fyrir börnin og … já. Það er allt. Frístundavistunina fæ ég rúmlega greidda til baka með barnabótum um hver mánaðarmót þannig að það telst varla með.

Að hluta er ég líka að aðlagast því að vera farinn úr því að eiga hús og í að leigja íbúð. Það er nokkuð notalegt. Splæsti þrjátíuþúsundkalli í tryggingu fyrir árið og síðan ekki söguna meir. Þegar ég drekk morgunkaffið á svölunum sé ég fólkið sem starfar fyrir húseignarfélagið vappa hér um og sópa planið, klippa trén eða safna haustlaufum. Það lak meðfram þéttingu á ofni hjá mér í gær og áður en ég vissi af var náungi kominn og farinn, búinn að redd’essu.

En alltaf læðist að mér sá grunur að ég ætti að vera borga meira. Kannski er það líka vegna þess að ég á ekki lengur bíl. Hér eru hjólastígar um allt þannig að ég splæsi bara öðru hverju í strætó eða lest. Það tók mig fyrstu 2 mánuðina að spreða í jafnvirði bensíntanks.

Að fá debetkort í hendurnar og horfa ekki fram á að borga fyrir hvert skipti sem ég renni því var jafn flippuð upplifun fyrir mig og þegar ég fór fyrst eftir pylsubrauðum út í búð og sá að ég átti ekki bara að kaupa Myllubrauð og fokka mér. Ég gat keypt heilkorna, fjölkorna, saffran, stór, lítil, dökk, ljós, með sesamfræjum… Og frá mörgum framleiðendum. Þetta á sem betur fer ekki bara við pylsubrauð. Ég sé ekki eftir einum einasta meter sem ég þarf að feta mig eftir risavöxnum mjólkurkælinum til að velja tegundina, framleiðandann og upprunann sem ég er til í hverju sinni.

Þetta er alveg ágætt.

Og allt gefur þetta manni aðra sýn á tilveruna. Ég hef fengið að fjarlægjast verksmiðjuvæðingu heimabæjar míns, skattpíninguna þar í boði Sjálfstæðissukkara fyrri ára og allar áhyggjur af því hvort ríkisstjórnin ætli að fara með mig beina leið til bandsjóðandi helvítis fljótlega eða seinna. Svíþjóð á sín vandamál en ég er enn um sinn alsæll í fáfræði minni og hef enga þörf fyrir að skrifa um eða æsa mig yfir nokkru yfirleitt.

Tímabilið sem varð til þess að ég opnaði Facebook-síðu sem snerist um að spyrna fótum gegn meðvirkni fólks í bænum mínum er núna að baki og ég er búinn að loka henni. Ég er hættur að ítreka margra mánaða gamla tölvupósta til núverandi bæjarstjórnar um milljónapartýsukk og stóriðjugreiða bara til að ergja mig á því í bloggfærslum.

Maður verður bara pirraður á svona vitleysu og það er allt of fallegt haustið hérna í Svíþjóð til að eyða tíma í annað en að njóta þess.

focus