Líf án lista – stuttmynd

Í hinu árlega rifrildi um listamannalaun hefur flest verið sagt, og safnast í sarp fyrri ára. Ég ætla ekki að bæta neinu við nema tilvitnun í Oscar Wilde:

Bölsýnismaður er sá sem þekkir virði alls en gildi einskis.

…og svo þessari stuttmynd Baldvins Z og Óskars Jónassonar:

Auglýsingar

Svona falsaði Útvarp Saga niðurstöðurnar

Ég trúi ekki að ég sé að skrifa um þetta. En þar sem þessi vinkill hefur að því er mér finnst ekki komið nógu skýrt fram í fjölmiðlum get ég ekki á mér setið.

Meðan Útvarp Saga birti könnunina um Bubba Morthens rauk þátttakan í yfir 40 þúsund atkvæði á einni nóttu, nær öll með Bubba. Það skýrist af því að í samræmi við annað drasl sem kemur frá þessari útvarpsstöð þá er síðan þeirra með handónýtt kosningakerfi sem takmarkar ekki hve oft hægt er að kjósa. Einn sprellikall eða -kelling með tölvukunnáttu í meðallagi getur sett af stað fjölva sem smellir á atkvæði út í hið óendanlega.

En líkt og hendi væri veifað breyttust niðurstöður kosningarinnar þannig að yfirgnæfandi meirihluti var nú gegn Bubba. Vísir hefur velt upp pælingum um að skífan með svarhlutfallinu sé með annarri litaskiptingu en venjulega en svarið liggur í augum uppi.

bubbamálið 3Vinstra megin er skjáskot Vísis frá því að könnunin fór í loftið og hægra megin er könnunin eins og hún lítur út í dag. Arnþrúður einfaldlega skipti um texta í reitunum og víxlaði „já“ og „nei“ þegar niðurstaðan var henni ekki þóknanleg.

Mér finnst hálf kjánalegt að skrifa um þetta, því þetta er svo ómerkileg og barnaleg hegðun að allt innra með mér segir mér að hunsa þessa bjána. En þetta er einelti, og það er fjölmiðill sem stendur grímulaust á bak við það. Arnþrúður kvartar yfir því að vera lögð í einelti þegar fólk talar gegn rasismanum og smásálarhættinum sem þessi útvarpsstöð stendur fyrir en sannleikurinn er sá að hún er eineltisdólgur af verstu sort.