Strax að breytast

Fyrsti pistill eftir kosningar. Það er nú eitthvað.

Nú þegar nýtt samstarf hefur verið myndað um stjórn bæjarins er svolítið skondið að fylgjast með þeim litlu breytingum sem strax hafa orðið síðan á kosninganótt.

Þeir sem bölsótuðust út í mig fyrir að beina gagnrýni að nafngreindum stjórnmálamönnum hamast nú við að níða skóinn af þeim sem hafa tekið höndum saman um nýja stjórn með persónulegum aðfinnslum. Allt eitthvað svo óskaplega smásálarlegt og ómerkilegt.

Fólkið sem hneykslaðist á því að talað væri um liðin afglöp fráfarandi stjórnar fer nú mikinn í að ímynda sér verðandi afglöp hinnar nýju stjórnar.

Þeir embættismenn sem grímulaust töluðu máli flokksbræðra sinna í aðdraganda kosninga hlakka nú opinberlega auðmjúkir til samstarfs við hinn nýja meirihluta.

Sama fólk og harmaði svo einlægt skilningsleysi þeirra sem bentu á ókláraða langhunda fyrrum stjórnar krefst nú skjótra úrlausna frá stjórninni sem er ekki einu sinni tekin formlega við.

Korter-í-kosningar áróðurinn um Helguvíkurframkvæmdir er nú orðinn að korteri-eftir-kosningar áróðri þar sem bærinn, enn undir stjórn fráfarandi meirihluta, sendir fréttatilkynningar um ekki neitt til að poppa upp það sem lofað var í Helguvík.

Sjálfur er ég himinsæll með breytingarnar og vongóður um komandi tíma. Ég var að ræða þetta við ungan mann um daginn sem var ekkert mikið inni í pólitíkinni í Reykjanesbæ og þegar ég útskýrði fyrir honum það litríka samstarf sem nú liggur fyrir um stjórn bæjarins sagði hann:

„Þetta hljómar ágætlega. Þetta verður svona eins og að halda veislu með góðum vinahópi þar sem allir leggja af mörkum eftir því sem þeir eru góðir í. Ekki þannig að allir mæti með ipodinn sinn til að græja tónlist og enginn hugsi fyrir matnum.“

Ég held það bara.

Auglýsingar